Eigandi fyrirtækisins Nábítar, böðlar & illir andar ehf, segir að honum hafi ekki komið á óvart að hæstirréttur skyldi dæma honum í hag í máli Lýsingu gegn fyrirtækinu.
Dómurinn hljóðaði upp á að Lýsingu hf. væri ekki heimilt að taka járnabeygjuvél úr vörslu félagsins Nábíta, böðla & illra anda ehf., með beinni aðfaragerð.
„Sigurinn er sætur,“ segir Örn Gunnlaugsson, forsvarsmaður fyrirtækisins. „Lýsing svipti mig vélinni án dómsúrskurðar í desember 2009. En samkvæmt lögum er það gertæki (Innsk. blaðamanns: að taka lögin í eigin hendur) og varðar sektum. En þeir tóku ranga vél, bægslagangurinn var svo mikill. Það kom vörubíll með krana og hífði upp vélina sem þeir töldu sig eiga að taka. En þeir tóku yfir 30 ára gamla vél og það tók þá fjóra mánuði að átta sig á því. Þá var fullyrt að ég hefði skilað rangri vél,“ segir Örn. „En það eru rangfærslur. Ég skilaði engu, ég horfði bara á þetta.“
Í framhaldinu kærði Lýsing Örn til efnahagsbrotadeildar fyrir blekkingar.
Málinu er nú lokið með úrskurði hæstaréttar og vélin er í vörslu Arnar, á starfsstöð fyrirtækisins sem ekki hefur verið með starfsemi í heilt ár. Fyrirtækið sinnti áður sérhæfðum verkefnum, sem sneru að uppsteypu, fyrir byggingariðnaðinn.
„Ég hef alla tíð boðið Lýsingu uppgjör innan ramma laganna. Ég er ekki að reyna að koma mér hjá því að borga það sem ég á að borga. En Lýsing hefur ekki svarað mér.“
„Nafnið á fyrirtækinu, Nábítar, böðlar og illir andar, er í virðingarskyni við Landsbanka Íslands, sem heitir í dag NBI hf.,“ segir Örn.