Tilkynning um ísbirni reyndist vera hrekkur

Ekkert reyndist hæft í sögum af þremur ísbjörnum.
Ekkert reyndist hæft í sögum af þremur ísbjörnum. Reuters

Lögreglan á Sauðárkróki fékk tilkynningu í nótt um að þrír ísbirnir hefðu sést á hafís rétt utan við Skagafjörð og þeir stefndu í átt að landi. Þegar lögreglan kannaði málið í morgun og kom í ljós að um vinnustaðahrekk var að ræða.

„Lögreglan fær tilkynningu um hálf tvö í nótt um að það sé komin einhver melding á Facebook-síðu skipstjórans á Málmey um að þrír ísbirnir hafi sést á hafís hérna rétt utan við skagann, og að þeir hafi verið á leiðinni í land,“ segir Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Stefán segir menn hafi ákveðið að bíða til morguns með að skoða málið betur. Í ljós hafi komið að þetta hafi átt að vera grín.

„Það komust einhverjir skipverjar í tölvuna hjá skipstjóranum og settu þetta inn á síðuna hjá honum,“ segir Stefán og bætir við að skipstjórinn hafi ekkert vitað af þessu.

„Í ljósi sögunnar þá getum við ekki annað en tekið svona alvarlega. Þá höfum við verið í sambandi við Landhelgisgæsluna undanfarna daga einmitt út af því að hafísinn er kominn ansi nálægt,“ segir hann og bætir við að menn hafi verið farnir að undirbúa viðbrögð þegar það kom í ljós að þetta ætti ekki við nein rök að styðjast. Hann tekur þó fram að viðbúnaðurinn hafi ekki verið komin á fullt skrið.

„Ég er búinn að tala við skipstjórann og það er allt í góður okkar í milli, og það verða engir eftirmálar af þessu af okkar hálfu,“ segir Stefán. Málið sé hins vegar litið alvarlegum augum. Svona fréttir geti valdi ótta og skelfingu meðal íbúa enda komi ísbirnir á land með reglulegu millibili. Að sögn Stefáns er þetta eitthvað sem menn geta átt von á í meiri mæli nú en verið hefur.

„Þetta var vinnustaðahrekkur sem fór yfir strikið,“ segir Stefán sem hvetur menn til að gera grín að einhverju öðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert