Vinstri grænir gætu klofnað í tvo flokka fari sú atburðarás í hönd að Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, stígi til hliðar og af stað fari harðvítug barátta tveggja arma um leiðtogasætið. Þetta er mat Einars Mars Þórðarsonar stjórnmálafræðings sem telur þó ólíklegt að Steingrímur víki.
„Steingrímur er vissulega í erfiðri stöðu í sínum eigin flokki. Hann er með þingmenn sem virðast ekki styðja hann. Hann virðist þó vera, eins og er, leiðtogi flokksins og maður sér ekkert endilega í kortunum að honum verði steypt af stóli. Þannig að ég held að hann sé í ágætri stöðu þannig lagað. En vissulega hefur hann kannski ekki fullkomið traust allra í þingflokknum.“
Margir gætu tekið við formennsku
- Hverja sérðu fyrir þér sem mögulega leiðtoga flokksins?
„Vissulega hlýtur að vera þarna fólk sem getur tekið við formennsku. En ég held að það sé enginn sem getur ógnað Steingrími á meðan hann kýs að sitja áfram. Það er hins vegar spurning, ef hann kýs að stíga niður, hver gæti sætt þessi átök sem hafa verið í flokknum.“
Katrín eða Björn Valur?
- Hvaða nöfn koma til greina?
„Flokkurinn er með varaformann [Katrínu Jakobsdóttur] og það er spurning hvort hún gæti verið mannasættir í þessum deilum sem hafa verið í flokknum. Svo má vel ímynda sér að ef Steingrímur stígur niður muni þessir tveir armar takast á og þá er það spurning með Ögmund Jónasson og hvort varaformaðurinn eða einhverjir aðrir, á borð við Björn Val Gíslason, muni sækjast eftir formannsstólnum.“
Ekkert ómögulegt í stöðunni
- Gæti þróunin orðið á þann veg ef Steingrímur víkur og til átaka kemur að flokkurinn klofni í tvennt?
„Ég held að það sé allt mögulegt í þeim efnum. En ég er samt ekkert að sjá fyrir mér að Steingrímur stígi til hliðar,“ segir Einar Mar sem tekur fram að dánarvottorð hafi áður verið gefið út á ríkisstjórn VG og Samfylkingar.
„Það er búið að spá þessari ríkisstjórn andláti síðan hún varð til, nánast í hverri viku, og hún lifir enn. Þannig að ég er ekkert viss um að hún sé í andaslitrunum. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvað hún sitja lengi og hvort hún muni sitja út kjörtímabilið eða hvort að það verði gerðar einhverjar róttækar breytingar á henni,“ segir Einar Mar.