Ættu að viðurkenna níðpóstana

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is

„Lilja Mósesdóttir hefur trúað okkur fyrir þessari aðför að henni og oft á tíðum komið til okkar miður sín út af henni. Það er ekki bara í gegnum tölvupósta heldur nægir að hlusta hvernig er til dæmis hrópað að henni í þingsal,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

„Þetta er ekki einhver tilbúningur í henni eða Morgunblaðinu.“

- Er öruggt að hluti þessara pósta komi frá Samfylkingunni?

„Já,“ segir Birgitta sem kveðst ekki hafa séð póstana sjálf og geti því ekki tjáð sig um hverjir sendu þá.

Ljótt að gangast ekki við póstunum

„Mér finnst svo ljótt þegar fólk sendir svona frá sér, hvort sem það er til fjölmiðla eða í svona póstum, að það gangist ekki við því að hafa gert það. Alltaf þegar að það er svona átroðsla á aðra fyrir þeirra skoðanir, eins og var í tengslum við kosningar í kringum ESB-umsóknina, misbýður mér það. 

Það var alveg makalaust að horfa upp á það þá. Ég steig þá fram því mér var svo misboðið. Ég var nýbyrjuð á þessum vinnustað og hafði aldrei séð svona aðferðir á neinum stað sem ég hafði unnið á. Þá er ég að tala um hvernig nokkrir þingmenn voru teknir fram á gang og þeim hótað. Björgvin [G. Sigurðsson] og Jóhanna [Sigurðardóttir] tóku þingmenn fyrir og sögðu við þá að ef þeir kysu ekki með þessu frumvarpi myndu þeir fella fyrstu vinstri stjórnina.“ 

Ótæk framkoma gagnvart Lilju

- Hvað finnst þér um framkomuna gagnvart Lilju?

„Mér finnst hún ótæk. Ég hef sjálf lent í svona framkomu. Það er mjög lítið umburðarlyndi fyrir því að fólk sé ekki eins og hinir. Það sýnir ákveðinn vanþroska í mannlegum samskiptum ef að fólk má ekki hafa sjálfstæðar skoðanir - fyrir utan að við skrifum undir drengskapareið um að fylgja sannfæringu okkar á þessum vinnustað. Það var mikið talað um það í aðdraganda kosninga að fólk eigi að fylgja sannfæringu sinni. Það er nú ekki eins og Lilja hafi ákveðið að gera þetta án þess að reyna virkilega í sínum flokki að tryggja að það væri hlustað á hennar tillögur,“ segir Birgitta og á við þá ákvörðun Lilju að styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. 

„Ef það er einhver í Vinstri grænum og Samfylkingunni sem hefur sérhæft sig í að skoða þessa hluti út frá sinni fagþekkingu, eins og áhrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ríkisfjármál og annað, að þá er það Lilja Mósesdóttir.

Því finnst mér ótrúlegt að hluta á Árna Þór Sigurðsson í Kastljósinu í gær um að þeir hefðu ekki viljað fara þá leið að skattleggja séreignasparnaðinn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með sambærilegar tillögur. Þetta gengur ekki. Fólk verður að komast yfir þetta mikla hatur á milli flokkanna. Við getum ekki starfað í svona umhverfi og þetta er bara mjög barnsleg hegðun.

Árni Þór nánast sýnir Lilju fyrirlitninu, eins og í þessu viðtali í Kastljósi í gær. Maður horfir á það og hugsar með sér „Þetta er þá þingflokksformaðurinn sem hún á að líta til ef aðrir eru að brjóta á henni á þessum vinnustað. Það er ekki skrýtið að þingið virki ekki eins og vinnustaður því það hefur enga eðlilega vinnustaðaumgjörð,““ segir Birgitta.

Dr. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og þingmaður Vinstri grænna.
Dr. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ásdís
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert