Brynjar: HÍ misnotaður í pólitískum tilgangi

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.

Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, fjallar í pistli á Pressunni um þær hugmyndir að koma á fót stofnun sem kennd væri við Evu Joly.  Markmið þeirrar stofnunar væri að einbeita sér að lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi.

 Segir lögmaðurinn að það kæmi ekki á óvart ef HÍ yrði notaður sem vettvangur alþjóðlegrar ráðstefnu á vegum stofnunarinnar. Það yrði ekki í fyrsta skipti sem menntastofnunin sé misnotuð í pólitískum tilgangi.

Telur Brynjar engan skort veraá allskonar alþjóðlegum stofnunum um lýðræði og fjölmiðlafrelsi og réttlátt þjóðfélag.  

„Oftast eru þær kenndar við fólk sem hefur lagt eitthvað sérstakt til málefnisins og barist fyrir því árum saman. Pólitísk forsaga Evu gefur ekki  tilefni til að ætla að framangreind málefni hafi verið henni sérstaklega hugleikin. Gamlir kommúnistar og vinstri sósialistar voru ekki sérlega uppteknir af lýðræði og fjölmiðlafrelsi eins og vestræn lýðræðisríki hafa túlkað þau hugtök.

Þeir voru hins vegar gjarnan með réttlætið að vopni í baráttu sinni, þótt sitt hafi  hverjum sýnst um þann réttlætisboðskap.

Af hverju ættu Íslendingar að koma á fót stofnun um hugðarefni Evu Joly? Konan hefur verið hér á landi í nokkra sólarhringa samtals sem ráðgjafi við rannsókn sakamála. Það væri nær að Norðmenn og Frakkar settu fót slíka stofnun, en í þeim löndum hefur hún búið og starfað alla sína tíð.

Það er lenska hér á landi að búa til sjálfseignastofnanir utan um pólitískar skoðanir og til prýðis utanum pakkann er  hnýtt fögur slaufa lýðræðis, mannréttinda, baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi og fátækt og almennum rangindum heimsins. Stundum hefur maður á tilfinningunni að annað búi að baki, kannski pólitískur frami. Það væri sjálfsagt ekki ónýtt að hafa heila stofnun utanum hugðarefni sín uppi á Íslandi, þegar leitað verður eftir fylgi franskra kjósenda um stuðning í forsetaframboði þarlendra.
Og ekki skortir hina auralitlu söfnunarmenn hugmyndaflug, þegar leitað er fjármuna til að koma Stofnun Evu Joly á koppinn. Beinast liggur við að leita til íslenskrar verkalýðshreyfingar. Endalaust virðist hægt að leita í þá sjóði í því skyni að styðja við hugðarefni og pólitísk markmið vinstrimanna.

Ekki kæmi á óvart að Háskóli Íslands yrði notaður sem vettvandur fyrir alþjóðlega ráðstefnu, sem orð leikur á að eigi að halda hér á landi í mars á næsta ári, vegna opnunar Stofnunar Evu Joly. Það er þá ekki í fyrsta sinni sem sú ágæta menntastofnun er misnotuð í pólitískum tilgangi," skrifar formaður Lögmannafélags Íslands um stofnun sem kennd yrði við Joly sem meðal annars hefur starfað við embætti sérstaks saksóknara sem rannsakar mögulega glæpi sem framdir hafa verið í tengslum fjármálakerfið á Íslandi.

 Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert