Ekki tilefni til viðbragða

Íslensk stjórnvöld telja ekki tilefni til viðbragða við því að íslenskum skipum verði óheimilt að landa sínum afla í erlendum höfnum, enda sé um að ræða afla úr sameiginlegum stofnun sem ekki sé samkomulag um stjórnun á.

Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, bendir á að vert sé að hafa í huga að makrílveiðar íslenskra skipa hafi á undanförnum árum nær eingöngu farið fram innan íslensku efnahagslögsögunnar og öllum afla hafi verið landað í íslenskum höfnum og hann unninn hér á landi.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af opinberri umfjöllun um hugsanlegt bann við löndun íslenskra skipa á makríl í höfnum innan Evrópusambandsins.

Hún er svohljóðandi:

„Samkvæmt lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, er erlendum skipum, sem stunda veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum sem ekki er samkomulag um stjórnun á, óheimilt að landa slíkum afla í íslenskum höfnum. Íslensk stjórnvöld telja ekki tilefni til viðbragða við því að sams konar reglur gildi um löndun íslenskra skipa í erlendum höfnum, enda sé um að ræða afla úr sameiginlegum stofnum sem ekki er samkomulag um stjórnun á.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að makrílveiðar íslenskra skipa hafa á undanförnum árum nær eingöngu farið fram innan íslensku efnahagslögsögunnar og öllum afla hefur verið landað í íslenskum höfnum og hann unninn hér á landi.  

Mikilvægt er hins vegar að menn missi ekki sjónar á aðalatriðum þess máls sem hér um ræðir. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að strandríkin fjögur, Ísland, ESB, Færeyjar og Noregur, beri sameiginlega ábyrgð á makrílstofninum og að brýnt sé að þau nái samkomulagi um heildstæða stjórnun veiða úr stofninum.

Í þessu ljósi hafa íslensk stjórnvöld gagnrýnt ESB og Noreg harðlega fyrir að hafa tekið ákvörðun um makrílkvóta sína fyrir næsta ár sem nema samtals 583.882 tonnum eða rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla. Ljóst er að þessir aðilar tóku við ákvörðun sína ekki tillit til lögmætra hagsmuna strandríkjanna Íslands og Færeyja. Kvótaákvörðun ESB og Noregs er í raun og veru ákvörðun um að heildarveiðar á makríl á næsta ári fari fram úr ráðlögðum heildarafla og er fullri ábyrgð vegna þessa vísað á hendur þeim.
 
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði þegar ákveðið að Ísland tæki sér óbreytta hlutdeild í makrílveiðum á næsta ári, um 17% af heildarveiðunum, að teknu tilliti til aukningar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). ICES hafði lagt til að leyfilegur heildarafli næsta árs yrði allt að 646.000 tonn, en ráðgjöfin fyrir þetta ár hljóðaði upp á allt að 572.000 tonn. Beindi ráðherra því til ESB og Noregs að taka tillit til hlutdeildar Íslands við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar á næsta ári færu ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf, en ljóst er að þessir aðilar hafa virt það að vettugi. Í samræmi við framangreinda ákvörðun um óbreytta hlutdeild Íslands í makrílveiðunum er kvóti Íslands á árinu 2011 146.818 tonn en kvóti þessa árs var 130.000 tonn.

Íslensk stjórnvöld eru áfram reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að samkomulag náist um heildarstjórnun makrílveiðanna og tryggja þannig sjálfbærar veiðar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert