Hissa á ummælunum

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður studdi ekki fjárlagafrumvarpið.
Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður studdi ekki fjárlagafrumvarpið.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, er hissa á ummælum Oddnýjar G. Harðardóttur, formanns fjárlaganefndar, sem sagðist í kvöldfréttum RÚV ekki geta unnið áfram með honum í fjárlaganefnd eins og ekkert hafi gerst. Traust milli manna sé horfið. Ásmundur Einar segir að fyrir mestu sé að einbeita sér að málefnunum.

Ásmundur Einar, Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir, þingmenn VG, studdu ekki afgreiðslu fjárlaga og hefur hjáseta þeirra vakið hörð viðbrögð.

„Mín afstaða í þessum málum hefur alltaf legið klár fyrir. Það lá algerlega fyrir varðandi heilbrigðis- og velferðarmálin að ég taldi að forgangsröðin væri ekki rétt. Auk þess sem ég og fleiri studdumst við nýsamþykktar ályktanir flokksráðs Vinstri grænna, þar sem bent var á að heilbrigðiskerfinu skyldi hlíft og að sýnt skyldi fram á að niðurskurður myndi ekki hafa í för með sér þjónustuskerðingu og uppsagnir innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins. Á niðurskurðar- og krepputímum væri ekkert mikilvægara en að verja en velferðar- og menntakerfið. Sem dæmi má nefna niðurskurðinn á Bretlandseyjum, þar sem meira að segja breski Íhaldsflokkurinn fer varlega þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðismálum,“ segir hann.

Var fullkunnugt um mína afstöðu 

,,Þetta hafði ég rætt bæði einslega við formann fjárlaganefndar, á meirihlutafundum í fjárlagnefnd og í mínum þingflokki. Auk þess flutti ég tillögur inn í fjárlaganefnd sem snérust um að taka út byggðaáhrif fjárlagafrumvarpsins og um að meta hvaða áhrif niðurskurðurinn hefði í einstökum byggðarlögum.

Það kemur mér vægast sagt á óvart að mál séu sett upp með þessum hætti, því mönnum var fullkunnugt um mína afstöðu í þessum málum á meðan á öllu þessu fjárlaganefndarferli stóð,“ segir hann. 

Ásmundur Einar segist eftir sem áður verja ríkisstjórnina ef vantrauststillaga komi fram. „En ég hef jafnframt sagt að forgangsröðun þurfi að breytast,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert