Lilja lögð í pólitískt einelti

Atli Gíslason, þingmaður VG.
Atli Gíslason, þingmaður VG. mbl.is/Ómar

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að Lilja Mósesdóttir, flokkssystir hans hafi almennt verið lögð í pólitískt einelti í langan tíma. Atli segist biðja um málefnalega umræðu.

Atli segist ekki hafa séð tölvupósta milli þingmanna Samfylkingar og VG um Lilju Mósesdóttur, sem greint hefur verið frá.

Hann segist ekki vilja tilgreina hverjir leggi Lilju í einelti. „Hún hefur verið í þeirri stöðu. Hún hefur mátt sæta mjög hastarlegri og óréttmætri og ósanngjarnri gagnrýni fyrir málefnalegar tillögur,“ segir Atli.

Hann segir þetta eiga við um almenna þjóðmálaumræðu, ekki bara á þinginu heldur út um allt þjóðfélagið, þar sem Lilja hafi verið lögð í einelti.

Atli segist biðja um málefnalega umræðu. Nauðsynlegt sé að lofta út og ræða þessi mál. „Nú reynir á fólk hvort það vill taka málefnalega umræðu eða halda sig við að persónugera þessi mál,“ segir Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka