Óhætt að trúa fréttinni

Ögmundur Jónasson, dóms- og samgönguráðuherra.
Ögmundur Jónasson, dóms- og samgönguráðuherra. mbl.is/Kristinn

Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra segir að Árna Þór Sigurðssyni, starfandi þingflokksformanni VG, sé óhætt að trúa frétt Morgunblaðsins um að þrír þingmenn VG, sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga í síðustu viku, hafi fundað með sér, Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanni VG sem sé í fæðingarorlofi.

Ögmundur bendir á á bloggsíðu sinni að hann hafi staðfest þessar fréttir í samtali við mbl.is í gær.

„Eitt er þarna ofsagt, að ég hafi fyrst frétt af hjásetunni við atkvæðagreiðsluna, það var ég búinn að gera áður. Ekki útiloka ég að ég kunni að þessu leyti að hafa verið óljós eða misvísandi við fréttamann. En rétt er haft eftir mér í beinni tilvitnun að á þessum fundi hafði engin ákvörðun verið tekin af hálfu viðkomandi einstaklinga. Þá vil ég nefna  að ráðgerðir um að fella ríkisstjórnina voru engar uppi nema síður væri þótt eftirá langi marga til að gera því skóna,“ skrifar Ögmundur.

„Hitt má Árni Þór Sigurðsson vita að á forsíðu Morgunblaðsins birtist „fréttin"  undir stríðsfyrirsögn, ekki vegna þess að hún væri merkileg heldur til þess eins að gera þessar samræður tortryggilegar og skapa illindi. Nú vill svo til að ég talaði við marga fleiri í aðdraganda afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og þar á meðal formann flokksins,  Steingrím J. Sigfússon - og fleiri.  Og það hafa aðrir án efa  gert líka,“ bætir Ögmundur við.

Hann segir að það sé ekkert felumál að í VG hafi verið djúpstæður ágreiningur um ýmsa hluti.

„Er undarlegt að flokkur sem ekki vill ganga í ESB deili þegar sótt er um aðild að ESB? Menn skýra málstað sinn og takast á um hann. Slæmt? Varla. Við tókum upp stefnu og áherlsur [sic] Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sumum fannst þetta rétt og eru sammála þessum áherslum og telja þær skynsamlegar, óháð AGS.  Það á við um þorra alþingismanna,“ segir Ögmundur.

Nánar á bloggsíðu Ögmundar.

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. mbl.is/Ómar
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ásamt Ögmundi Jónassyni.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ásamt Ögmundi Jónassyni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert