Segja frétt mbl.is uppspuna

Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður þingflokks Samfylkingarinnar. mbl.is

Vegna fréttar mbl.is um níðskrif þingmanna Samfylkingar um þingmenn Vinstri Grænna vill stjórn þingflokks Samfylkingarinnar taka fram að fréttin er uppspuni. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn þingflokksins, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Róbert Marshall, hafa sent frá sér.

„Samskipti þingflokksins fara ekki fram á „spjallsvæði" í innanhúspóstkerfi Alþingis, líkt og segir í frétt mbl.is heldur á þingflokksfundum. Ekkert slíkt spjallsvæði er til. Fundir þingflokks eru boðaðir með bréfum í tölvupósti og jafnvel með sendingu smáskilaboða í síma þegar við á og óskir um fundarefni og hugleiðingar um stjórnmálaástandið ganga stundum á milli þingmanna flokksins í tölvupóstum.

Fréttavefur mbl.is gerði við vinnslu sinnar fréttar enga tilraun til að bera fréttina undir stjórn þingflokksins og virðist byggja frásögn sína á heimildarmanni sem telur að þingmenn flokksins ræði sín á milli á sérstöku „spjallsvæði". Vinnubrögð mbl.is í málinu eru forkastanleg," segir í tilkynningu frá stjórn þingflokks Samfylkingarinnar.

Sjá frétt mbl.is um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert