Vegna fréttar mbl.is um níðskrif þingmanna Samfylkingar um þingmenn Vinstri Grænna vill stjórn þingflokks Samfylkingarinnar taka fram að fréttin er uppspuni. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn þingflokksins, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Róbert Marshall, hafa sent frá sér.
„Samskipti þingflokksins fara ekki fram á „spjallsvæði" í innanhúspóstkerfi Alþingis, líkt og segir í frétt mbl.is heldur á þingflokksfundum. Ekkert slíkt spjallsvæði er til. Fundir þingflokks eru boðaðir með bréfum í tölvupósti og jafnvel með sendingu smáskilaboða í síma þegar við á og óskir um fundarefni og hugleiðingar um stjórnmálaástandið ganga stundum á milli þingmanna flokksins í tölvupóstum.
Fréttavefur mbl.is gerði við vinnslu sinnar fréttar enga tilraun til að bera fréttina undir stjórn þingflokksins og virðist byggja frásögn sína á heimildarmanni sem telur að þingmenn flokksins ræði sín á milli á sérstöku „spjallsvæði". Vinnubrögð mbl.is í málinu eru forkastanleg," segir í tilkynningu frá stjórn þingflokks Samfylkingarinnar.