Íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um 1000 manns á tíu árum. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir það mikið áhyggjuefni.
Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði. Þar segir að á Suðurfjörðunum haldi íbúunum áfram að fækka og meira en áður.
Fækkun á Ísafjarðarsvæðinu hefur verið rúm 3% og Þóroddur telur að þar sé að skapast alvarlegt ástand.
Hann segir að tími sé kominn til að Vestfirðingar taki ákvörðun um hvort snúa eigi þessu við. Ekkert byggðarlag þoli svona mikla fækkun.
Íbúum allra sveitarfélaga á Vestfjörðum fækkaði á síðasta ári að undanskildum þremur sveitarfélögum.
Hlutfallslega hefur íbúum fækkað mest í Bolungarvík eða um 81 og eru Bolvíkingar nú 887 talsins sem þýðir að fækkunin er 8,5% milli ára.