Um 25 hönnuðir og tæknimennn á vegum SPITAl-hönnunarteymisins vinna nú dag hvern að forhönnun nýja háskólasjúkrahússins á Landspítalalóðinni. Þá er jafnframt unnið að deiliskipulagi sem á að vera tilbúið til auglýsingar í byrjun febrúar.
„Það er eðlilegur gangur á þessu miðað við áætlanir, segir Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar um byggingu sjúkrahússins. Er nú unnið að því að útbúa útboðsgögn en fyrsti hluti þeirra á að vera tilbúin í ágúst á næsta ári. Bjóða þarf verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu.
Gunnar segir að verkefnisstjórnin vinni líka þessa dagana að deiliskipulagi með skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem verði væntanlega tilbúið til auglýsingar í byrjun febrúar.
,,Fyrstu útboðspakkarnir gætu verið tilbúnir þegar deiliskipulagið hefur verið samþykkt. Bæði auglýsingatími deiliskipulagsins og samþykktartíminn gæti staðið yfir í 6 mánuði. Í ágústmánuði gætu því fyrstu útboðspakkarnir verið tilbúnir vegna undirbúningsframkvæmda, s.s. gatnagerðar og fleiri verkefna vegna undirbúnings á byggingarsvæðinu,“ segir hann.
Forsvarsmenn lífeyrissjóða skrifuðu á sínum tíma undir viljayfirlýsingu um þátttöku í fjármögnun byggingarframkvæmdanna. „Þeir eru enn viljugir að koma að þessu,“ segir Gunnar.