Hækkanir á eldsneyti koma á óvart

Verð á hráolíu og bensínverð hefur hækkað ört að undanförnu …
Verð á hráolíu og bensínverð hefur hækkað ört að undanförnu á heimsmarkaði.

Verð á eldsneyti á heimsmarkaði hefur hækkað verulega að undanförnu. Verð á tunnu af hráolíu fór yfir 94 dollara í dag og bensínið hækkaði í gær um 15 dollara. Þetta er mjög óvenjulegt á þessum árstíma þar sem verð er yfirleitt lægst í desember, að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra hjá N1.  

Íslensku olíufélögin hafa ekki hækkað útsöluverð seinustu daga eftir þessar seinustu hækkanir og óljóst er hvenær hækkanirnar ytra koma fram í verðinu hér heima en það ræðst einnig af gengisþróun krónunnar. Krónan hefur veikst um 6-7 krónur gagnvart Bandaríkjadal frá í október. Magnús segir að hluti hækkananna á heimsmarkaði séu þegar komnar fram í verðinu hér heima.

Kuldakast ýtir undir hækkanir 

,,Það er óvenju hátt verð í desember miðað við það sem venja er,“ segir Magnús um hækkanirnar á heimskarkaðsverðinu. Megin ástæðan er áreiðanlega kuldakastið í Evrópu, að mati hans.

Að sögn Magnúsar er venjan sú ef litið er yfir árið að eldsneytisverð á heimsmarkaði er yfirleitt lægst í desember. Það hækkar svo yfirleitt á nýjan leik í janúar. Magnús segir þó enn mikla óvissu um hvort verðhækkanir núna haldi áfram í janúar.

„Það er engan veginn gefið að svo verði. Veðrið hefur áhrif á það. Með fimbulkulda víða í Evrópu eykst olíunotkunin og eftirspurnin verður mjög mikil, sem hefur áhrif á verðið,“ segir Magnús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert