Landsbankinn birtir endurútreikninga

Landsbankinn hefur birt endurútreikning fasteignalána viðskiptavina sem voru með myntkörfulán. Íslandsbanki mun senda viðskiptavinum sínum bréf með endurútreikningum strax eftir áramót og Arion banki ætlar að birta sína útreikninga innan 60 daga.

Frá og með gærdeginum gátu viðskiptavinir Landsbankans með gengistryggð fasteignalán, með sama lántaka frá upphafi, séð endurútreikning í einkabanka Landsbankans. Endurútreikningur annarra lána sem rétt eiga á uppreikningi verður birtur síðar.

Endurútreikningurinn er framkvæmdur miðað við lægstu verðtryggða og óverðtryggða vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum nýrra almennra útlána lánastofnana. Sú niðurstaða sem er lántaka hagstæðari myndar nýjan höfuðstól lánsins en til samanburðar eru báðar leiðir birtar.

Eftir áramót verður hægt að staðfesta endurútreikninginn og velja um nýtt verðtryggt eða óverðtryggt lán í íslenskum krónum. Einnig mun lántakendum standa til boða að vera áfram með lán í erlendum myntum, en í þeim tilvikum mun lánið ekki verða endurútreiknað.

Breyting úr gengistryggðu fasteignaláni í  lán í íslenskum krónum getur haft í för með sér verulegar breytingar á greiðslubyrði þar sem vextir íslenskra lána eru almennt hærri en lána í erlendri mynt.  Viðskiptavinum Landsbankans mun því standa til boða lausnir til að lækka greiðslubyrðina eftir að endurútreikningur hefur farið fram.  Meðal annars með breytingu lána í jafngreiðslulán og/eða með lengingu lánstíma.

Íslandsbanki er að ljúka endurútreikningum

Innan Íslandsbanka hefur verið unnið að undirbúningi endurútreiknings húsnæðislána í erlendri mynt, í samræmi við nýsamþykkt lög frá Alþingi þess efnis.   Verið er að taka saman upplýsingar um þá viðskiptavini sem endurútreikningarnir munu ná til.  Viðskiptavinir munu fá bréf um framkvæmd endurútreikningana í byrjun nýs árs.  Verða útreikningar aðgengilegir í Netbanka Íslandsbanka þegar þeir liggja fyrir.

Þeir viðskiptavinir Íslandsbanka sem hafa þegar þegið höfuðstólslækkun Íslandsbanka munu fá frekari lækkun á lánum sínum ef endurútreikningarnir verða hagstæðari. Að sama skapi munu þeir geta haldið höfuðstólslækkun óbreyttri ef sú lækkun hefur verið meiri en endurútreikningar lánsins segja til um.

Þar til endurútreikningar fara fram stendur viðskiptavinum Íslandsbanka áfram til boða að greiða mánaðarlega fasta krónutölu kr. 5000 af hverri upphaflegri milljón lánsins.

Innan Arion banka er einnig hafinn undirbúningur við endurútreikning erlendra lána sem falla undir nýsamþykktu lögin. Stefnt er að því að senda út nýjan útreikning eins fljótt og auðið er, en í síðasta lagi innan 60 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert