Landsvirkjun og Þingeyjarsveit hafa náð samkomulagi um kaup Landsvirkjunar á 4% hlut Þingeyjarsveitar í einkahlutafélaginu Þeistareykjum ehf. Kaupverðið eru tæpar 2 milljónir bandaríkjadala eða 234 milljónir króna. Eftir kaupin á Landsvirkjun rúmlega 96,7% hlut í félaginu, Orkuveita Húsavíkur 3,2% og Þingeyjarsveit 0,087%.
Þeistareykir ehf. hafa frá árinu 2001 staðið að rannsóknum á möguleikum jarðhitasvæðisins að Þeistareykjum til jarðhitanýtingar. Hafa meðal annars verið boraðar sex djúpar rannsóknarholur frá þremur borteigum, en samtals afkasta holurnar gufu sem jafngildir um 45 MW raforkuframleiðslu.
Landsvirkjun segir, að vísbendingar séu um að á Þeistareykjum sé veruleg framleiðslugeta til viðbótar en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé talið vera eitt af stærri jarðhitakerfum Íslands. Þeistareykir ehf. munu áfram stunda rannsóknir á svæðinu og er gert ráð fyrir að félagið fjárfesti í rannsóknum og öðrum undirbúningsframkvæmdum vegna uppbyggingar raforkuvinnslu fyrir allt að 720 milljónir króna á árinu 2011.