Af 76 sveitarfélögum leggja 66 á hámarksútsvar en tvö
sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Meðalútsvarið
verður 14,41% í stað 13,12%.
Nú liggja fyrir útsvarsprósentur sveitarfélaga fyrir árið 2011. Meðalútsvarið verður 14,41% í stað 13,12% . Með yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga á næsta ári hækkaði útsvarsheimild sveitarfélaga um 1,2 prósentustig. Sveitarfélögin geta nú samkvæmt lögum ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,48%.
Sveitarfélögin sem leggja ekki á hámarksútsvar eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Garðabær, Kjósarhreppur, Skorradalur, Hvalfjarðarsveit, Tjörneshreppur, Fljótsdalshreppur, Ásahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur. Í öllum öðrum sveitarfélögum er útsvarsprósentan 14,48%. Skorradalur og Ásahreppur eru með lægsta útsvarið á landinu 12,44%.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu verður staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars í þremur þrepum; 37,31%, 40,21% og 46,21%. Mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa verða 209.400 kr. í fyrsta þrepi, 471.150 kr. í öðru þrepi og 680.550 kr. í þriðja þrepi.
Persónuafsláttur hvers einstaklings verður óbreyttur eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði og skattleysismörk 123.417 kr. að teknu tilliti til 4% lögbundinna iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð.