Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fimmtuga konu í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá lögreglumann í aðra kinnina með handarbakinu.
Fram kemur í dómnum, að konan hafi lent í átökum við lögreglumenn, sem vildu fjarlægja hana af veitingastað í apríl í fyrra en konan var mjög ölvuð og æst.
Í lögregluskýrslu kom fram, að þegar lögreglumenn voru að styðja konuna á leið að lögreglubíl hafi konan skyndilega orðið mjög æst og slegið lögreglumann á vinstri kinn með handarbaki hægri handar. Lögreglumaðurinn hafi þó ekki hlotið sýnilega áverka.
Konan lýsti því yfir við meðferð málsins fyrir dómi, að hún hefði strokið lögreglumanninum um kinn, eins og það er orðað í dómnum. Dómurinn taldi hins vegar hafið yfir skynsamlegan vafa að hún hefði slegið lögreglumann við skyldustörf.
Konan hefur ekki komið við sögu dómstóla áður.