Stálu frá mæðrastyrksnefnd

Mæðrastyksnefnd úthlutar matarpokum fyrir jólin.
Mæðrastyksnefnd úthlutar matarpokum fyrir jólin.

Brotist var inn hjá Mæðrastyrksnefnd Kópavogs á sunnudaginn og stolið þaðan 20 matarpokum. Sigurfljóð Skúladóttir, formaður nefndarinnar, segir sorglegt að svona nokkuð skuli gerast. Þetta sé tilfinnanlegt tjón.

Þjófurinn náði að opna glugga með kúbeini. Hann stal matarpokunum, en í þeim var kjöt og fleira gott í jólamatinn. Sigurfljóð sagði að þjófurinn hefði einnig rústað öllu í fatadeildinni og rótað í geymslu þar sem jólapakkar eru geymdir. Hún sagðist ekki vera búin að fara yfir hvort miklu hefði verið stolið þar.

„Það er sorglegt að þetta skuli hafa gerst. Maður er í sjokki út af þessu, en við erum það heppin að það hafa verið að koma inn peningar til okkar og við höfum því getað keypt kort. Það fer því enginn tómhentur frá okkur fyrir jólin þrátt fyrir þetta áfall,“ sagði Sigurfljóð. Hún sagðist ekki vita til þess að lögreglan væri búin að hafa upp á þeim sem stálu frá nefndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert