Reykjavíkurborg leggst ekki gegn komu þjóðhöfðingja hingað til lands en ef þeir koma til landsins í herflugvélum er því beint til þeirra að lenda á Keflavíkurflugvelli sem er alþjóðaflugvöllur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna frétta að undanförnu um bókun borgarráðs um að takmarka umferð herflugvéla á Reykjavíkurflugvelli.
Á Keflavíkurflugvelli er öll aðstaða til lendingar fyrir herflugvélar og gætt fyllsta öryggis sem felst í því að þeim er lagt á sérstakt stæði langt frá öllu farþegaflugi, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Borgaryfirvöld telja mikilvægt að farið verði vandlega yfir þær reglur sem í gildi eru um umferð herflugvéla á Reykjavíkurflugvelli. Vinna þurfi enn frekar að nánari skilgreiningu á því hvaða flugvélar verði skilgreindar sem herflugvélar með það að markmiði að auka öryggi í borginni sérstaklega í ljósi þess að flugvöllurinn er í nálægð við íbúabyggð.
Rétt er í þessu samhengi að vekja athygli á því að Reykjavíkurflugvöllur er fyrst og fremst ætlaður til innanlandsflugs og staðsetning hans í miðri borg gerir kröfur til öryggis sem umferð herflugvéla getur ekki samræmst nema í undantekningartilvikum. Hins vegar flugvöllurinn varaflugvöllur og þjónar að sjálfsögðu áfram sem slíkur eins og áður var nefnt," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.