Elda 300 kíló af skötu

Heimilisfólk og starfsfólk Hrafnistu heldur í hefðina með því að gæða sér á skötu á Þorláksmessu. Nóg hefur verið um að vera í eldhúsi hjúkrunar- og dvalarheimilisins frá því snemma í morgun þar sem um 300 kíló af skötu verða elduð fyrir 900 manns á Hrafnistuheimilunum.

Magnús Margeirsson, yfirmaður eldhúsa Hrafnistu, segir í samtali við mbl.is að áhuginn á skötunni fari síður en svo dvínandi. „Það var byrjað að tala um hana í byrjun desember. Þetta er sá árstími sem barnið kemur upp í gamla fólkinu,“ segir hann.

Magnús segist aðspurður halda í hefðina hvað varðar eldamennskuna, menn séu ekki að bregða út af vananum. „Við ruggum ekki bátnum hér,“ segir Magnús, sem hefur starfað í eldhúsinu í rúma þrjá áratugi.

Að sögn Magnúsar hófst eldamennskan kl. sjö í morgun. Auk skötunnar þarf einnig að huga að meðlæti þar bætast við um það bil 600 kíló af hráefni. Alls gerir þetta um 900 kíló fyrir 900 manns.

Aðspurður segir Magnús að menn séu miskröfuharðir varðandi það hvernig þeir vilji hafa skötuna. „Það er ákveðinn hópur sem vill alvöru skötu, þannig að ammoníakið fari upp í gegnum nefið þegar þeir setja hana upp í sig.“

Fyrir þá sem ekki hugnast skatan verður boðið uppá saltfisk.

Það var góð stemning í Laugarásnum þegar ljósmyndari mbl.is leit …
Það var góð stemning í Laugarásnum þegar ljósmyndari mbl.is leit þar við. mbl.is/Eggert
Alls verða elduð 300 kíló af skötu fyrir 900 heimilsmenn …
Alls verða elduð 300 kíló af skötu fyrir 900 heimilsmenn og starfsmenn Hrafnistu. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert