Breytingar verða gerðar á starfsstöðvum sendiherra í utanríkisþjónustunni um áramótin. Mun Stefán Haukur Jóhannesson, sem verið hefur sendiherra í Brussel frá árinu 2005, flytjast heim til starfa í ráðuneytinu 15. janúar nk. og heldur áfram að gegna starfi aðalsamningamanns Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Þórir Ibsen, sem verið hefur sendiherra í París frá árinu 2009, verður sendiherra Íslands í Brussel frá 15. janúar nk. með fyrirvara um samþykki belgískra stjórnvalda.
Berglind Ásgeirsdóttir, sem verið hefur í leyfi frá embætti sendiherra í utanríkisþjónustunni frá árinu 2007, tekur við sem sendiherra Íslands í París.
Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að flytja Önnu Jóhannsdóttur og Högna S. Kristjánsson úr embættum skrifstofustjóra í utanríkisþjónustunni í embætti sendiherra frá og með 1. janúar 2011.