Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá lögreglukonu, sparka í höfuð lögreglumanns og hóta þeim og sex öðrum lögreglumönnum og fangaverði lífláti.
Um var að ræða tvö atvik. Fyrst þegar maðurinn var handtekinn í miðbæ Akureyrar aðfaranótt 17. júní í sumar og fluttur í fangaklefa og síðan í september þegar hann var vistaður í fangaklefa.
Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa sparkað í höfuð annars manns á Ráðhústorginu í september. Hann var dæmdur til að greiða manninum 224.500 þúsund krónur í bætur.
Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi ekki gerst sekur um lögbrot fyrr, hann hafi játað brot sín skýlaust og lýsti auk þess yfir iðran og samþykkt bótaskyldu. Þá hafi hann jafnframt borið að engin alvara hafi legið að baki orðum sem hann lét falla til lögreglumanna og fangavarðar.
Einnig kemur fram, að en lögreglumennirnir hlutu ekki sýnilega áverka. Þá hafi maðurinn, sem ráðist var á, ekki hlotið varanlegan skaða.