Spron sjóðnum slitið

Spron hætti starfsemi á síðasta ári.
Spron hætti starfsemi á síðasta ári. Árni Sæberg

SPRON sjóðurinn ses hefur á undanförnum dögum úthlutað 340 milljónum króna til margvíslegra málefna tengdum menntun, menningu og góðgerðastarfi. Tekin hefur verið ákvörðun um að slíta sjóðnum.

Við úthlutun styrkjanna var tekið mið af þeim málefnum sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis studdi á meðan sparisjóðurinn var enn við lýði en SPRON sjóðurinn ses varð til við breytingu sparisjóðsins í hlutafélag árið 2007.  Ennfremur  var horft til ýmissa verkefna sem stuðla að framþróun í íslensku samfélagi bæði til skemmri og lengri tíma en erfitt hefur reynst að fjármagna sökum erfiðs efnahagsástands.

Styrkirnir til góðgerðarmála nema samtals 130 milljónum. Landspítali – Háskólasjúkrahús fékk 30 milljónir vegna kaupa á vöktunartækjum á gjörgæslu Landspítalans. 30 milljónir fóru til kaupa á endurhæfingartækjum á Grensásdeild Landspítalans.

Umhyggja – Félag langveikra barna fékk 30 milljónir til stuðnings langveikum börnum og foreldrum þeirra. Hjálparstarf kirkjunnar fékk 20 milljónir króna til Hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi. Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands fékk 20 milljónir króna til Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands

Sjóðurinn styrkti menningartengd málefni um 120 milljónir. Tónlistarsjóður fyrir ungt og efnilegt tónlistarfólk í Hörpu fékk 80 milljónir króna til stofnunar tónlistarsjóðs sem ætlaður er til þess að veita ungu og efnilegu tónlistarfólki tækifæri á að koma fram í hinu nýja tónlistarhúsi, Hörpunni um ókomin ár. Borgarleikhúsið fékk 20 milljónir krónur til styrktar Borgarleikhúsinu og er styrknum ætlað að styðja við Borgarleikhúsið í þeirri viðleitni að kynna leikhúsið fyrir ungu fólki.

 
Hverfissjóður SPRON sjóðsins í Reykjavíkurborg fékk 20 milljónir  króna til stofnunar hverfissjóðs Reykjavíkurborgar en honum er ætlað að styðja við aukið frumkvæði íbúa Reykjavíkurborgar og viðleitni þeirra til þess að fegra sitt nánasta umhverfi og auðga mannlífið í hverfum borgarinnar.


Spron sjóðurinn úthlutaði 90 milljónum til menntunar og nýsköpunar. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fékk 60 milljónir króna til fjármögnunar á ráðstefnusal stofnunarinnar sem bera mun heiti Vigdísar Finnbogadóttur. 
Rannsókna og háskólanet Íslands fékk 30 milljónir til breikkun bandvíddar á höfuðborgarsvæðinu.  Styrkurinn mun styðja við nýsköpun og fræðastarf í háskólasamfélaginu og einnig almenning, fyrirtæki og stofnanir sem nýta netið við nýsköpunar- og fræðastarf sitt.

SPRON sjóðnum slitið í kjölfar úthlutunar


Stjórn sjóðsins tók jafnframt ákvörðun um slíta starfsemi sjóðsins í kjölfar úthlutunar. Frá stofnun sjóðsins við breytingu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag í október 2007 voru eignir hans bundnar í hlutabréfum SPRON og með falli þess í mars 2009 hvarf langstærsti hluti eigna sjóðsins. Sjóðurinn átti þó innstæður sem námu aðeins brot af heildarvirði sjóðsins og hefur þeim fjármunum nú verið úthlutað.  Frá því í mars 2009 hefur stjórn sjóðsins metið hvort halda bæri áfram starfsemi hans í breyttri mynd en hefðbundnir ávöxtunarmöguleikar á fjármunum sjóðsins hafa reynst  óhagstæðir og því var sú ákvörðun tekin að slíta sjóðnum.  Hefur nú öllum fjármunum sjóðsins verið úthlutað í samræmi við þau lög og þær reglur sem um sjóðinn gilda og lýkur starfsemi sjóðsins frá og með áramótum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert