Landsvirkjun og Carbon Recycling International hafa undirritað viljayfirlýsingu um að meta hagkvæmni þess að reisa metanólverksmiðju í nágrenni jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar við Kröflu á Norðausturlandi.
Fram kemur í fréttabréfi Landsvirkjunar, að gert er ráð fyrir að efnamælingar hefjist á svæðinu í upphafi næsta árs. Landsvirkjun og CRI kynntu sveitarstjórn Skútustaðahrepps þessar hugmyndir fyrr í þessari viku.
Verksmiðjan myndi hreinsa koltvísýring úr útblæstri Kröflustöðvar og breyta honum í metanól með hjálp raforku og vatns. Hugsanleg orkuþörf verksmiðjunnar er 50-60 MW og myndi hún þá framleiða 50-100 milljónir lítra af metanóli á ári með hliðsjón af þeirri framleiðsluaðferð sem yrði notuð.
Undirbúningur við hugsanlega verksmiðju gæti hafist á fyrri hluta árs 2011 ef
fýsileiki metanólframleiðslu á svæðinu verður staðfestur og Landsvirkjun og CRI
ná samkomulagi um skilmála orkusölusamnings. Í undirbúningi felst meðal annars
öflun nauðsynlegra leyfa og samningaviðræður við hagsmunaaðila.