Hafði ekki húmor fyrir gamanleik

Stefán Karl Stefánsson, leikari
Stefán Karl Stefánsson, leikari

Skólastjóri Leiklistarskóla Íslands kunni ekki að meta gamanleik Stefáns Karls Stefánssonar leikara, með þeim orðum að gamanleikur snerist ekki aðeins um fettur og grettur. Þetta kemur fram í viðtali leiklistargagnrýnandans Richard Ouzounian við Stefán Karl á vef The Star.

Stefán Karl hefur síðan notið mikilla vinsælda fyrir gúmmíandlit sitt, nú síðast í uppfærslu á gamanleiknum Grinch í Kaliforníu, en þar leikur hann græna skrímslið allt að fjórum sinnum á dag.

Verkið heitir „Þegar Trölli stal jólunum“ á íslensku en það er eftir „Dr. Seuss“, öðru nafni Theodor Seuss Geisel. Þorsteinn Valdimarsson íslenskaði.

Leikurinn reynir á Stefán Karl sem segir í samtalinu að ekki taki því að taka af sér gervið, enda taki svo langan tíma að setja það á hann. Því sé hann í gervinu í allt að 13 tíma á sýningardegi.

Í viðtalinu segir Stefán Karl frá uppvexti sínum í Hafnarfirði og hvernig bankamenn og leigubílstjórar hafi þar komið saman til að setja upp leiksýningar í áhugamannaleikhúsi. En það var á þessum tíma sem Stefáni Karli var strítt fyrir áhugamál sitt, leiklistina. 

Þá segir Stefán Karl frá smæð Íslands og hvernig allir Íslendingar þekki einhvern á þjóðþingi landsins.

Hann segir framtíðina óráðna.

„Ég á mér ekki draumahlutverk. Það er ekki búið að skrifa það enn þá,“ segir Stefán Karl í viðtalinu sem má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert