Skólastjóri Leiklistarskóla Íslands kunni ekki að meta gamanleik Stefáns Karls Stefánssonar leikara, með þeim orðum að gamanleikur snerist ekki aðeins um fettur og grettur. Þetta kemur fram í viðtali leiklistargagnrýnandans Richard Ouzounian við Stefán Karl á vef The Star.
Stefán Karl hefur síðan notið mikilla vinsælda fyrir gúmmíandlit sitt, nú síðast í uppfærslu á gamanleiknum Grinch í Kaliforníu, en þar leikur hann græna skrímslið allt að fjórum sinnum á dag.
Verkið heitir „Þegar Trölli stal jólunum“ á íslensku en það er eftir „Dr. Seuss“, öðru nafni Theodor Seuss Geisel. Þorsteinn Valdimarsson íslenskaði.
Leikurinn reynir á Stefán Karl sem segir í samtalinu að ekki taki því að taka af sér gervið, enda taki svo langan tíma að setja það á hann. Því sé hann í gervinu í allt að 13 tíma á sýningardegi.
Í viðtalinu segir Stefán Karl frá uppvexti sínum í Hafnarfirði og hvernig bankamenn og leigubílstjórar hafi þar komið saman til að setja upp leiksýningar í áhugamannaleikhúsi. En það var á þessum tíma sem Stefáni Karli var strítt fyrir áhugamál sitt, leiklistina.
Þá segir Stefán Karl frá smæð Íslands og hvernig allir Íslendingar þekki einhvern á þjóðþingi landsins.
Hann segir framtíðina óráðna.
„Ég á mér ekki draumahlutverk. Það er ekki búið að skrifa það enn þá,“ segir Stefán Karl í viðtalinu sem má nálgast hér.