Starfandi formaður þingflokks VG, Árni Þór Sigurðsson, lagði fram greinargerð á þingflokksfundi í fyrradag vegna deilnanna um fjárlögin. Er þar m.a. fullyrt að hvorki Atli Gíslason né Ásmundur Einar Daðason hafi gert athugasemd eða fyrirvara við framlagningu þess.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að því sé mótmælt í greinargerðinni að efnahagsstefnan byggist á því að „verja fjármagnskerfið á kostnað velferðarþjóðfélagsins“ eins og Lilja Mósesdóttir, Atli og Ásmundur Einar hafi sagt.
Þremenningarnir segja tillögur sínar í samræmi við grunnstefnu VG og ályktanir flokksráðsfunda. Árni Þór segir að ef þetta merki að afstaða meirihluta þingflokksins sé ekki í samræmi við grunnstefnuna sé það „einfaldlega rangt og sérlega ódrengilegt að saka 12 af fimmtán þingmönnum, formann og varaformann flokksins og alla ráðherra flokksins um slíkt“.