Jólasveinar fengu aðstoð lögreglu

Hó hó hó! Jólasveinunum var alls staðar mjög vel tekið …
Hó hó hó! Jólasveinunum var alls staðar mjög vel tekið í morgun. mbl.is/Júlíus

Jólasveinar hafa í dag heimsótt nokkur heimili á höfuðborgarsvæðinu með aðstoð lögreglunnar þar sem sleðinn þeirra bilaði, eins og einn þeirra komst að orði í samtali við mbl.is. Börn á Barnaspítala Hringsins munu einnig njóta góðs af þessari samvinnu.

Lögreglan skipulagði heimsóknirnar fyrir jólasveinana og tók hóflegt gjald fyrir. Þegar hafa safnast 100 þúsund krónur sem verða afhentar Barnaspítalanum 28. desember nk.

„Þetta gengur svakalega vel,“ sagði Haukur Sigmarsson lögreglumaður sem var að aðstoða jólasveinana nú um hádegið. „Sveinarnir hafa bankað upp á mörg hús og gefið gjafir og glatt börnin.“

Haukur og þrír félagar hans úr lögreglunni, þeir Andri Helgason, Þórir Geirsson og Bergsteinn Karlsson, eiga heiðurinn af þessu skemmtilega góðgerðarmáli. Líklega verður heimsóknunum ekki lokið fyrr en kl. 16 í dag en um 20 fjölskyldur fá sveinana inn á gólf til sín  í dag.

Jólasveinarnir nutu aðstoðar lögreglunnar sem ferjaði þá á milli staða …
Jólasveinarnir nutu aðstoðar lögreglunnar sem ferjaði þá á milli staða í lögreglubíl. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert