Jólin eru einstök reynsla

Jólin voru hringd inn klukkan 18 í kvöld í kirkjum landsins og sóttu margir aftansöng en víða eru einnig miðnæturmessur síðar í kvöld.

„Og þannig eru jólin, þau eru persónulegur veruleiki og einstök reynsla hverrar manneskju, þau eru ekki háð ytri umgjörð en við tjáum þau hins vegar með ljósunum og skrautinu og matnum og gjöfunum og það er bara gott,“ segir Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju í jólahugvekju á mbl.is.

Hún segir einnig að í gegnum árin hafi kirkjan verið „alltof dugleg við að skamma fólk fyrir neyslumynstur jólanna, í stað þess að sjá að þetta er tjáning, vissulega er ekki gott að tjáningin brenni vísakortið eða umbreytist í græðgi á kostnað annarra en við erum í heildina skynsöm þjóð og vitum hvað til okkar friðar heyrir.“

Fréttavefur Morgunblaðsins óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla. 

Jesúbarnið er að koma! Ef einhver heldur að kristin trú muni brátt heyra sögunni til líkt og sjónvarpslaus fimmtudagskvöld eða ópal í bláum pökkum, þá er sá hinn sami eitthvað laustengdur veruleikanum.

Þegar ég var barn í Laufási taldi ég mér trú um að jólin hefðu fyrst fundið sér stað á þessum tiltekna bletti í Grýtubakkahreppi, allar tilraunir til að rekja upphaf jólanna til Betlehem, borgar Davíðs, náðu einungis inn að hægra heilahveli þar sem þekking mín festir helst rætur en til hjartans lágu vegatálmar því jólin voru bara í Laufási.

Þar lá Jesúbarnið í amerískri jötu á stærð við litla fingur og María og Jósep mændu sykursæt á frumburðinn eins og Hollywoodstjörnur, gott ef María var ekki strax komin með sléttan kvið og Jósep var ekki vitund þreytulegur þrátt fyrir þriggja daga ferð um óbyggðir Palestínu og svefnlausa nótt í gripahúsi þar sem kornung unnusta hans var að fæða barn í heysátu.

Ég er ekki viss um að nútímafeður væru tilbúnir að skipta á því og lazyboystólnum á Hreiðrinu með Séð og heyrt í annarri og nuddolíu í hinni.

En s.s. þarna var mitt Betlehem, á stofuborðinu heima í Laufási, og inn í þennan fallega veruleika dróst ég á meðan pabbi lék Bing Crosby á grammófón, „I'm dreaming of a white christmas“ og mamma steikti fleskdregnar rjúpur ofan í ómegðina. Þetta Betlehem var keypt í Ameríku en um leið og það var komið inn á heimilið varð það mitt eigið Betlehem, hvorki amerískt né ísraelskt.

Og þannig eru jólin, þau eru persónulegur veruleiki og einstök reynsla hverrar manneskju, þau eru ekki háð ytri umgjörð en við tjáum þau hins vegar með ljósunum og skrautinu og matnum og gjöfunum og það er bara gott. Veistu af hverju ég óttast það aldrei að kristin trú muni enda á Þjóðminjasafninu eins og síðasta Sinalcoflaskan? Það er vegna þess að hún er lifandi veruleiki, hefurðu séð lifandi manneskju sem safngrip? Nei, a.m.k. vona ég að svo sé ekki. Kristin trú er lifandi veruleiki sem þýðir að hún hefur áhrif, allt sem lifir hefur áhrif á skilningarvit okkar og þar með tilfinningalíf, þess vegna tjáum við okkur með ytri umbúnaði, ljósum og skrauti, ekki vegna þess að við séum svo dæmalaust hégómleg, heldur vegna þess að við erum í eðli okkar að þakka í mannlegum vanmætti okkar.

Í gegnum árin hefur kirkjan verið alltof dugleg við að skamma fólk fyrir neyslumynstur jólanna, í stað þess að sjá að þetta er tjáning, vissulega er ekki gott að tjáningin brenni vísakortið eða umbreytist í græðgi á kostnað annarra en við erum í heildina skynsöm þjóð og vitum hvað til okkar friðar heyrir.

Í aðdraganda jóla eru viðbrögð okkar svipuð og þegar barn er væntanlegt í heiminn, þá kaupum við klæðnað, kerrur og leikföng og við þrífum og við teljum niður, skoðum þroskaferli fósturs á netinu og þegar barnið loks kemur í heiminn er klæðnaðurinn og kerran og leikföngin algjört aukaatriði, við munum varla slóðina að vefsíðunni sem var opin alla meðgönguna en þetta var samt tjáningarform tilhlökkunarinnar og þakklætisins fyrir lífið.

Og þannig er það líka þegar við setjumst niður við kvöldverðarborðið á aðfangadagskvöld og horfumst í augu við prúðbúna ástvini okkar, þá skynjum við að lífið er máttugra en gjörðir okkar og dýpra en hugur okkar og stærra en hjartað, og samt er það lítið barn í viðkvæmum líkama, með fálmandi hendur, ómálga óviti sem ber hina skilyrðislausu elsku inn í þennan heim, elskuna sem frelsar okkur undan oki sektar og ótta.

Betlehem er þar sem þú skynjar mennsku þína, að þú ert elskuð manneskja, dýrmæt vegna þess að Guð elskar þig og á þig, þess vegna er Betlehem bæði í Ísrael og Grýtubakkahreppi já og í Ameríku þó að María hafi eflaust ekki verið með sléttan kvið á jólanótt og Jósep hafi líklega verið með dálitla bauga.

Nei á meðan manneskjur hafa þörf fyrir að elska og þakka mun Jesúbarnið koma aftur og aftur.Guð geymi þig og þína á þessum jólum.

Hildur Eir Bolladóttir

mbl.is
Hildur Eir Bolladótir
Hildur Eir Bolladótir mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert