Fréttaskýring: Skriða hækkana skerðir lífskjör almennings

Neytendur munu strax finna fyrir hækkunum á eldsneyti, áfengi og …
Neytendur munu strax finna fyrir hækkunum á eldsneyti, áfengi og tóbaki vegna sérstakrar hækkunar sem ákveðin hefur verið á þessum vörum. mbl.is/Kristinn

Hækkanir á sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja um áramót skerða ráðstöfunartekjur landsmanna. Áhrifin hafa ekki verið reiknuð út í heild en þau dreifast misjafnlega eftir þjóðfélagshópum og ráðast að hluta til af því hvar fólk býr. Gjaldskrár í Reykjavík hækka töluvert umfram almennt verðlag.

Tekjuskattur til ríkisins breytist ekki. Hann er áfram í þremur þrepum, eins og tekið var upp í fyrra. Persónuafsláttur er óbreyttur, 44.205 krónur á mánuði. Skattleysismörkin lækka örlítið. Fólk getur haft 123.417 krónur á mánuði án þess að greiða skatt. Er þá búið að taka tillit til lögbundins iðgjalds launþega í lífeyrissjóð.

Vegna tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga nú um áramótin fengu sveitarfélögin heimild til að hækka útsvar um 1,20% enda er gert ráð fyrir tilsvarandi lækkun á tekjuskattshlutföllum ríkisins á móti. Öll sveitarfélög landsins nýttu þessa heimild og sjö hækkuðu útsvarið umfram það. Í þeim hópi eru Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. 66 af 76 sveitarfélögum landsins nýta nú til fulls heimildir til álagningar útsvars.

Hækkun útsvars í þessum sjö sveitarfélögum leiðir til þess að meðalútsvar hækkar og þar með staðgreiðsla en hún tekur mið af meðalútsvari og tekjuskatti. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2011 verður 37,31 á tekjur í fyrsta tekjuskattsþrepi, í stað 37,22% í fyrra. Staðgreiðslan í öðru þrepi er 40,21% og 46,21% á tekjur í þriðja þrepi.

Ríkið tekur 1% af laununum til viðbótar

Sem dæmi um beinar skattahækkanir má nefna hækkun á fjármagnstekjuskatti, tekjuskatti fyrirtækja, auðlegðarskatti og erfðafjárskatti og breytingar á barnabótum og vaxtabótum. Þá hefur verið samþykktur sérstakur skattur á fjármálastofnanir.

Neytendur munu strax finna fyrir hækkunum á eldsneyti, áfengi og tóbaki vegna sérstakrar hækkunar sem ákveðin hefur verið á þessum vörum.

Alþýðusamband Íslands telur að breytingar á tekjuöflun ríkisins leiði til allt að 1% rýrnunar á ráðstöfunartekjum heimilanna. Hækkanir á gjaldskrám og sköttum sveitarfélaga koma þar til viðbótar.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að samtökin hafi lagst gegn þessum hækkunum. „Við teljum að heimilin þoli ekki meira og raunar hafa mörg ekki þolað þær hækkanir sem orðið hafa.“ Hann vekur athygli á því að hækkanir á óbeinum sköttum fari beint út í verðlagið og því greiði fólk þær í annað sinn með hækkun verðtryggðra lána.

Gefa sundkort í jólagjöf

Ekki fékkst í gær yfirlit yfir gjaldskrárhækkanir hjá Reykjavíkurborg. Fram kom við gerð fjárhagsáætlunar að gjaldskrár hækka almennt talsvert umfram verðlagsbreytingar, auk hækkunar á útsvari. Það er rökstutt með því að þær hafi ekki hækkað síðustu árin. Breytingarnar eru þó ekki allar á einn veg, hægt er að finna þjónustu sem hætt verður að rukka fyrir.

Sem dæmi um gjaldskrárhækkanir má nefna að gjald fyrir að fara í sund verður 450 kr. í stað 360. Ekki eru eins miklar hækkanir á kortum. Vegna boðaðra hækkana á þjónustu sundstaða hefur borið á því að íbúar hamstri sundkort, jafnvel til að gefa í jólagjöf. Leikskólagjöld hækka, einnig skólamáltíðir og ýmis önnur þjónusta við íbúa borgarinnar.

Sömu sögu má segja af fyrirtækjum sveitarfélaga. Ekki er langt síðan miklar hækkanir voru ákveðnar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur. Þá má nefna hækkun á gjaldi í strætó um áramót.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert