Julian Assange, stofnandi uppljóstrunarvefjarins WikiLeaks, sagði í viðtali við brasilískt dagblað í gær, að vefurinn hefði undir höndum þúsundir skjala sem biðu birtingar. Þar á meðal væru skjöl um Ísland, um svissneska banka, Caymaneyjar, Bandaríkin og Bretland.
Assange sagði að birting þessara skjala myndi hafa mikil pólitísk áhrif á bandarísk stjórnvöld og stjórnvöld í flelri löndum. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig nánar um hvers konar skjöl væri um að ræða. Vefurinn er nú að birta bandaríska sendiráðspósta.
Í viðtalinu gagnrýndi hann fjölmiðla fyrir að birta upplýsingar um mál, sem rekið er gegn honum í Svíþjóð þar sem tvær konur hafa kært Assange fyrir kynferðisbrot. Breska blaðið Guardian og bandaríska blaðið New York Times birtu um helgina fréttir um málið og byggðu á málsgögnum.
Assange sagði, að ekki væri hægt að leggja sama mælikvarða á kröfu um gegnsæi á einstaklinga og stjórnvöld. „Markmiðið með því að birta upplýsingar er að tryggja að stjórnvöld sýni ábyrgð. Það er hins vegar misnotkun þegar stjórnvöld afhenda fjölmiðli lagaleg gögn með það að markmiði að koma höggi á einstaklinga," sagði Assange.
Bæði Guardian og New York Times hafa átt í samstarfi við WikiLeaks um birtingu skjala sem vefurinn hefur undir höndum.