Úrhellisrigning er nú á Suður- og Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mældist mesta úrkoman á landinu síðasta sólarhringinn í Bláfjöllum, og var hún 116 millimetrar.
Víðar hefur verið mikil úrkoma. 56 millimetrar á Fáskrúðsfirði, 73 millimetrar á Kirkjubæjarklaustri og 65 millimetrar í Þykkvabæ.
Að sögn veðurfræðings fer fljótlega að draga úr úrkomunni á Bláfjallasvæðinu en hún verður áfram mikil á Suðurlandi og á Austfjörðum. Víða er hvassviðri eða stormur, hvassast um landið norðaustanvert. Rigning er á öllu landinu.
Mesti vindhraði klukkan níu í morgun mældist á Sóleyjarflatamelum, láglendisstöð á Norðausturlandi, en þar voru 27 metrar á sekúndu. Á hálendinu er einnig mjög hvasst, 26 til 33 metrar á sekúndu.
Asahláka verður fram eftir degi á Austurlandi.