Gert er ráð fyrir að söfnun í borgarbrennur í Reykjavík hefjist miðvikudaginn 29. desember og hætt verði að taka á móti efni þegar þær eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi kl. 12 á gamlársdag.
Á vef Reykjavíkur er haft eftir Þorgrími Hallgrímssyni, brennukóngi, að best sé að fá hreint timbur og bretti á brennurnar. Plast, gúmmí og unnið timbur eigi ekki erindi á brennurnar. Starfsmenn hverfastöðvanna verða á vettvangi og leiðbeina þeim sem koma með efni.
Brennurnar verða á sömu stöðum og í fyrra og rétt eins og þá eru stóru brennurnar fjórar og þær minni fimm talsins.