„Það verður reynt í lengstu lög að halda Landeyjahöfn opinni. Það eru engin önnur plön en að reyna að halda höfninni opinni í vetur. En hversu vel það tekst verður bara að koma í ljós,“ segir Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri.
Mbl.is náði tali af Hermanni í dag og bar undir hann þau ummæli Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum í Morgunblaðinu í dag, að rætt hafi verið um það hvort loka þurfi Landeyjahöfn það sem eftir lifir vetrar og fram á vor.
Hermann segir það mjög ólíklega niðurstöðu og engin áform um það.
Guðmundur Petersen, rekstrarstjóri hjá Eimskipa í Vestmannaeyjum, sem reka Vestmannaeyjaferjuna Herjólf, segir fyrirtækið í raun engu ráða um það hversu mikið höfnin í Landeyjum verður opin.
„Þetta veltur allt á Siglingastofnun. Við erum bara þolendur í þessu," segir Guðmundur. En hann kveðst alls ekki búast við því að höfnin verði lokið fram á vor. Þó svo að komu öflugs dýpkunarskips til landsins hafi seinkað talsvert og von sé á því að höfnin verði eitthvað lokuð í janúar og mögulega febrúar þá reikni menn alls ekki með því að hún verði samfellt lokuð fram á vor.
Landeyjahöfn var opin samfellt nánast allan þennan mánuð og samkvæmt Elliða Vignissyni í Morgunblaðinu í dag hefur um 20% af áætluðum ferðum í Landeyjahöfn verið aflýst frá því að höfnin var tekin í notkun.