Guðbjörn Guðbjörnsson segist hafa fengið góð viðbrögð við fréttum af stofnun nýs stjórnmálaflokks, Norræna borgaraflokksins. Segir Guðbjörn á bloggi sínu að hann standi að stofnun flokksins ásamt nokkrum tugum einstaklinga.
„Ég er fullur bjartsýni eftir gærdaginn, því auðsjáanlega er mikill áhugi á stofnun þess nýja stjórnmálaafls, sem ég og nokkrir tugir einstaklinga standa að. Ég hef einhvernvegin „óvart“ lent í forustu í þessu félagi og boðað alla þessa fundi, þar sem við byrjuðum á að ræða saman í 2-3 klukkustundir og komumst að því að við erum ótrúlega sammála um flesta hluti. Þegar betur var athugað kom í ljós að við vorum á ósköp svipaðri línu og hægri flokkar á Norðurlöndunum og víða annarsstaðar í Evrópu, en höfnum hins vegar algjörlega stefnu breska Íhaldsflokksins og bandaríska Repúblikanaflokksins, að ekki sé nú minnst á öfgaflokka á borð við breska Sjálfstæðisflokkinn (U.K. Independence Party). Engir erum við sósíaldemókratarnir, þótt hugsanlega hafi stefnan ýmsa snertipunkta við þá ágætu stefnu, en svipað má í reynd segja um jafnaðarmenn og hægri stefnuna," skrifar Guðbjörn á blogg sitt á Eyjunni.
Þar boðar hann að á næstu dögum og vikum muni hann koma stefnu Norræna borgaraflokksins á framfæri.