Engar stjórnarmyndunarviðræður

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

„Ég hef aldrei heyrt þetta. Það hafa verið að hringja í mig menn og spyrjast fyrir um hvort við eigum í einhvers konar viðræðum um stjórnarmyndun. Svar mitt er einfalt. Ég hef ekki orðið var við það,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, aðspurður um orðróm þessa efnis.

Höskuldur staðfestir þar með að hafa heyrt orðróm þessa efnis að undanförnu en hann tjáir sig ekki um hvaðan hann kemur. 

- Nú er tekist á í öðrum stjórnarflokknum. Telurðu að það styttist í að gerðar verði breytingar á stjórninni?

„Ég skal ekkert segja til um það. Þessi stjórn hefur auðvitað sýnt að hún vilji starfa saman þrátt fyrir klofning í ýmsum málefnum. Hvort að þeir vilji fá einhvern til að styrka sig hvað varðar einstök málefni skal ég ekkert segja til um. Ég held að þessi ríkisstjórn muni reyna að þrauka áfram.“

- Myndi Framsókn taka boðinu ef henni yrði boðið í stjórn?

„Það fer algjörlega eftir því á hvaða málefnagrundvelli það er. Ef það verður gert á sama málefnagrundvelli og þessi ríkisstjórn starfar á í dag að þá yrði því mjög auðsvarað frá mínum bæjardyrum séð. Svarið væri nei. Við höfum keyrt stefnu sem er á margan hátt þvert á þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Á þeim tíma sem þessi ríkisstjórn hefur starfað hefur hinum svokallaða órólega armi í Vinstri grænum oft á tíðum verið hótað með stjórnarslitum styðji þeir ekki einstök mál, eins og Icesave og umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst margt benda til að það sé einnig verið að leika sama leikinn núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert