Lög um gengisbundin lán taka gildi

Lána­stofn­an­ir hafa nú 60 daga frest til út­reikn­inga á ólög­mæt­um geng­is­bundn­um bíla- og fast­eign­veðlán­um. Frum­varp efna­hags- og viðskiptaráðherra um geng­is­bund­in lán var samþykkt á Alþingi laug­ar­dag­inn 18. des­em­ber og varð í dag að lög­um.


Í frétta­til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu kem­ur fram að  ljósi dóma Hæsta­rétt­ar frá 16. júní og 16. sept­em­ber sl. er tekið á út­reikn­ing­um hús­næðislána til neyt­enda og lán­um sem ein­stak­ling­ar hafa gert við fjár­mála­fyr­ir­tæki vegna kaupa á bif­reið til einka­nota.

Kveðið er á um að geng­is­bund­in fast­eigna­veðlán ein­stak­linga og svo­kölluð bíla­lán verði tal­in falla í sama flokk óháð orðalagi samn­inga þeirra. All­ir lán­tak­end­ur fá því lækk­un eft­ir­stöðva sinna til sam­ræm­is við dóm Hæsta­rétt­ar frá 16. sept­em­ber sl.

Lána­stofn­un­um er sett­ur tíma­frest­ur vegna upp­gjörs og út­reikn­inga á ólög­mæt­um geng­is­bundn­um lán­um. Frest­ur­inn til að senda lán­taka út­reikn­ing á nýj­um höfuðstól og/​eða end­ur­greiðslu of­greidds fjár er 60 dag­ar frá gildis­töku lag­anna að há­marki en upp­gjör skal fara fram inn­an 90 daga frá gildis­töku lag­anna.

Heim­ilt verður án álags eða vanefnda­af­leiðinga að greiða upp skuld af ólög­mætu geng­is­bundnu láni.

Regla um upp­gjör stuðlar að því að all­ar greiðslur af láni gangi inn á vexti og höfuðstól skuld­ar­inn­ar og að ekki verði heim­ilað að reikna drátt­ar­vexti eða önn­ur van­skila­álög af slík­um kröf­um við upp­gjör.

Í þeim til­fell­um sem eig­enda­skipti hafa orðið og fleiri en einn lán­tak­andi kem­ur að mál­inu er miðað við að sá lán­tak­andi sem orðið hef­ur fyr­ir tjóni fái það bætt beint úr hendi viðkom­andi lán­veit­anda. Með þeim hætti er hag­ur fyrri lán­tak­enda tryggður eft­ir því sem unnt er.

Ef ábyrgðar­menn hafa greitt af lán­um ganga kröf­ur þeirra fyr­ir öðrum kröf­um.

Lögð er til regla um upp­gjör ágrein­ings­mála ef áhöld eru um hver eigi rétt til end­ur­greiðslu eða upp­gjörs.

Lán­tak­end­ur hafa tíma­bundna heim­ild til að breyta lán­um sín­um yfir í gild er­lend lán, kjósi þeir svo. Fell­ur þá niður rétt­ur til sér­stakr­ar leiðrétt­inga á lán­inu.

Lán­tak­end­um fast­eigna­veðlána býðst jafn­framt að breyta láni sínu yfir í verðtryggð kjör.

Vikið er frá al­menn­um tíma­frest­um til end­urupp­töku dóms­mála hvað varðar geng­is­bund­in lán. Eng­inn rétt­ur er tek­inn af lán­tak­anda til að láta á mál sitt reyna fyr­ir dóm­stól­um.

 Lög­in breyta í engu rétt­ar­stöðu fyr­ir­tækja sem eru með geng­is­bund­in lán.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka