Röskun á flugi vegna veðurs

Röskun hefur orðið á flugáætlun Iceland Express (IE) og Icelandair vegna óveðurs í Bandaríkjunum, en þar lokuðust flugvellir í gær vegna kafaldsbyls. Skv. upplýsingum frá IE er vonast til að vél sem átti að koma frá New York í morgun lendi í Keflavík kl. 18 í kvöld.

Icelandair sendi út tvær aukavélar til Boston og New York síðdegis í gær og þær sneru til baka um níuleytið í morgun. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að einhverjar tafir hafi orðið á Evrópufluginu vegna þessa. Annars líti dagurinn vel út.

Um tveggja tíma seinkun varð á vélum Icelandair til Stokkhólms og Óslóar í morgun. Þá seinkar flugi til Kaupmannahafnar einnig um tvo tíma og á vélin að hefja sig til flugs kl. 19.

Kristín Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að vélin sem fór til  Bandaríkjanna í gær hafi ekki getað lent Newark vegna veðurs og því hafi henni verið snúið JFK-vallarins í New York. Samkvæmt flugáætlun átti vélin að lenda í Keflavík kl. sex í morgun en vonast er til að hún lendi kl. 18 í kvöld með um 200 farþega.

„Þetta virðist vera að opnast og við vonumst til að geta komist í loftið fljótlega,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. Menn reyni allt sem þeir geti og að það sé leitt að farþegarnir skuli tefjast. Hins vegar sé lítið hægt að gera þegar veðrið sé svona.

Þetta hefur raskað flugi IE til Evrópu, en vélar sem áttu að fara til London og Kaupmannahafnar fóru ekki í loftið kl. sjö líkt og til stóð. Hefur fluginu til London verið seinkað til 16:40 og fluginu til Kaupmannahafnar seinkað til til 19.

Þá er áætlað að vél IE frá Berlín lendi í Keflavík kl. 18:20 í kvöld, en hún átti að lenda kl. sex í morgun.

Upplýsingar um komur og brottfarir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka