Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, segir skort á pólitískri forystu í því ástandi sem skapast hefur í Landeyjahöfn.
„Samgönguráðherra þarf að stíga inn í þetta mál af myndugleik og taka utan um þessa atburðarás. Ef Siglingastofnun stendur sig ekki í því að hafa tiltækt dæluskip til þess að vinna á meðan hægt er að vinna í að halda höfninni opinni þá þarf samgönguráðherra að tryggja að það sé gert,“ segir Róbert í samtali við Morgunblaðið.
Í Morgunblaðinu í dag segir Ögmundur Jónasson samgönguráðherra pólitíska forystu gagnvart Eyjafjallajökli eða vindáttunum hafa afskaplega lítið að segja.