Ummæli Lilju eðlileg

Atli Gíslason alþingismaður sést hér ræða við Helga Bernódusson skrifstofustjóra …
Atli Gíslason alþingismaður sést hér ræða við Helga Bernódusson skrifstofustjóra Alþingis og Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég ætla að svara þér á latínu," sagði Atli Gíslason þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali nú fyrir hádegið, og spurði hvort hann hefði íhugað að segja sig úr þingflokki VG, líkt og Lilja Mósesdóttir íhugar nú.

„Cogito ergo sum," sagði Atli og vildi sem minnst segja eftir það, um ágreininginn innan VG um fjárlagafrumvarpið. Sagði hann að málið yrði rætt á þingflokksfundi 5. janúar en þangað til myndi hann ekki segja margt um það.

Orð hans eru tilvitnun í franska heimspekinginn René Descartes. Blaðamaður spurði hvort Atli ætti með þessu við að hann hefði sjálfstæða hugsun og það grundvallaði tilveru hans í pólitík, þ.e. að til greina kæmi hjá honum að segja sig frá flokksaganum og úr þingflokknum.

Atli túlkaði orð sín hins vegar ekki frekar.

Aðspurður hvað honum þætti um ummæli Lilju Mósesdóttur, þess efnis að íhugaði að segja sig úr þingflokki VG vegna ummæla flokkssystkina og ekki síst formannsins Steingríms J. Sigfússonar, sagði Atli að sér þættu þau ekki óeðlileg.

„Þetta eru skiljanleg ummæli. Hún má hafa sína skoðun. Hún hefur orðið mjög fyrir barðinu á flokkssystkinum sínum sem öðrum fyrir skoðanir sínar í þessu máli," sagði Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert