Olíuverzlun Íslands, Olís, hefur dregið til baka hækkun sína frá því um miðjan dag. Hækkunin nam þremur krónum á lítra og fylgdu hin olíufélögin ekki í kjölfarið. Undir kvöld kom í ljós að hækkunin var dregin til baka. Kostar bensínlítrinn því á nýjan leik 207,70 krónur í sjálfsafgreiðslu og 208,70 krónur lítrinn af díselolíu.
Olíufélögin hækkuðu öll eldsneytisverð síðast fyrir jólin en heimsmarkaðsverð á bensíni og olíu hefur hækkað töluvert að undanförnu. Um áramótin hækkar eldsneytisgjald ríkisins og má þá reikna með að eldsneytislítrinn hækki um allt að 5 krónur í kjölfarið.