Hátt í hundrað ökumenn eiga von á sekt eftir að brot þeirra voru mynduð á Hafnarfjarðarvegi eftir hádegið í gær. Meðalhraði hinna brotlegu var 93 km/klst en um veginn má aðeins fara á 80 km hraða að hámarki. Átta óku á yfir 100 km hraða eða meira. Sá er hraðast ók mældist á 107 km hraða.
Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hafnarfjarðarveg í suðurátt, gegnt Akrahverfi í Garðabæ. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 1.044 ökutæki þessa akstursleið, og voru 97 brotlegir. Því ók tæplega tíundi hluti ökumanna, eða 9%, of hratt eða yfir afskiptahraða.
Í tilkynningu frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins segir að á umræddum vegakafla hafi verið nokkuð um umferðaróhöpp að undanförnu, m.a. vegna hraðaksturs, og þannig sé vöktun lögreglunnar tilkomin.