Björn Thoroddsen tónlistarmaður fékk í dag styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen, fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra, við hátíðlega athöfn í Höfða. Styrkurinn er afhentur í tuttugasta og fimmta sinn og hafa styrkþegar bæði verið félagasamtök og einstaklingar sem hafa starfað að mannúðar-, heilbrigðis- og menningarmálum.
Sjóðurinn var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarð Briem þann 29. desember 1985 þegar liðin voru 75 ár frá fæðingu Gunnars. Styrkurinn er sérstaklega veglegur í ár í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Gunnars.
Í tilkynningu frá borginni segir, að Björn sé löngu landsþekktur fyrir tónlist sína og með sanni megi segja að hann sé með betri djassgítarleikurum landsins. Í gegnum árin hafi hann sinnt list sinni af alúð, metnaði og virðingu og árið 1999 kom út hljómdiskur með lögum Gunnars Thoroddsen í flutningi Björns og félaga.