Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, telur stofnunina komna að endimörkum varðandi hagræðingu í rekstri en með þeim aðgerðum sem nú hefur verið hrint í framkvæmd hefur stofnunin hagrætt í rekstri um 24% á þremur árum.
Á starfsmannafundi hjá Heilbrigðisstofnun
Þingeyinga í dag var farið yfir hagræðingaraðgerðirnar. Hann segir að viðbrögð starfsfólks á starfsmannafundinum í dag hafi
verið misjöfn en auðvitað hafi flestir átt von á að breytingar yrðu
gerðar vegna kröfu um 10% niðurskurð á næsta ári.
Að sögn Jóns Helga missa á annan tug starfsmanna vinnuna að hluta eða öllu leyti. Hefur fimm starfsmönnum í fullu starfi verið sagt upp og fleirum sem voru í hlutastarfi.
Meðal þeirra aðgerða sem gripið er til er að hjúkrunarrýmum er fækkað úr 23 í 18 og rekin verða 12-16 sjúkrarými í stað 20.
Fækkað er á stofnuninni um 10-12 stöðugildi flest í hjúkrun á legudeildum en einnig á á stoðdeildum.
Jón Helgi segir að langlegusjúklingar verði ekki sendir heim en auðvitað verði að draga úr allri þjónustu við þá. Þrengt sé að allri þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og væntanlega muni myndast biðlistar eftir þjónustu.
Aðspurður segir Jón Helgi að niðurskurðurinn nú sé talsvert minni heldur en sá 40% niðurskurður sem boðaður hafi verið í haust er fjárlagafrumvarpið var kynnt. En samt séu þetta 24% á þremur árum. „Þannig að þetta er býsna þungt," segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.
Hann segist efa að hægt sé að hagræða meira á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Menn séu komnir nálægt endimörkum í því. „Ég held að menn séu gengnir eins langt og hægt er," segir Jón Helgi Björnsson í samtali við mbl.is.