„Komin að endimörkum"

Flaggað var í hálfa stöng við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga eftir að …
Flaggað var í hálfa stöng við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga eftir að fjárlagafrumvarpið var birt í haust mbl.is/Hafþór

Jón Helgi Björns­son, for­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Þing­ey­inga, tel­ur stofn­un­ina komna að endi­mörk­um varðandi hagræðingu í rekstri en með þeim aðgerðum sem nú hef­ur verið hrint í fram­kvæmd hef­ur stofn­un­in hagrætt í rekstri um 24% á þrem­ur árum.

Á starfs­manna­fundi hjá Heil­brigðis­stofn­un Þing­ey­inga í dag var farið yfir hagræðing­araðgerðirn­ar. Hann seg­ir að viðbrögð starfs­fólks á starfs­manna­fund­in­um í dag hafi verið mis­jöfn en auðvitað hafi flest­ir átt von á að breyt­ing­ar yrðu gerðar vegna kröfu um 10% niður­skurð á næsta ári.

Að sögn Jóns Helga missa á ann­an tug starfs­manna vinn­una að hluta eða öllu leyti. Hef­ur fimm starfs­mönn­um í fullu starfi verið sagt upp og fleir­um sem voru í hluta­starfi.

Meðal þeirra aðgerða sem gripið er til er að hjúkr­un­ar­rým­um er fækkað úr 23 í 18 og rek­in verða 12-16 sjúkra­rými í stað 20.

Fækkað er á stofn­un­inni um 10-12 stöðugildi flest í hjúkr­un á legu­deild­um en einnig á á stoðdeild­um.

Jón Helgi seg­ir að lang­legu­sjúk­ling­ar verði ekki send­ir heim en auðvitað verði að draga úr allri þjón­ustu við þá. Þrengt sé að allri þjón­ustu hjá Heil­brigðis­stofn­un Þing­ey­inga og vænt­an­lega muni mynd­ast biðlist­ar eft­ir þjón­ustu.

Aðspurður seg­ir Jón Helgi að niður­skurður­inn nú sé tals­vert minni held­ur en sá 40% niður­skurður sem boðaður hafi verið í haust er fjár­laga­frum­varpið var kynnt. En samt séu þetta 24% á þrem­ur árum. „Þannig að þetta er býsna þungt," seg­ir for­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Þing­ey­inga.

Hann seg­ist efa að hægt sé að hagræða meira á Heil­brigðis­stofn­un Þing­ey­inga. Menn séu komn­ir ná­lægt endi­mörk­um í því. „Ég held að menn séu gengn­ir eins langt og hægt er," seg­ir Jón Helgi Björns­son í sam­tali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert