Milljón lítrum minna af áfengi

Búast má við að ös verði í Vínbúðum í dag.
Búast má við að ös verði í Vínbúðum í dag. mbl.is/Golli

Útlit er fyrir að tekjur ÁTVR af vínsölu verði þær sömu í ár og á síðasta ári þrátt fyrir 10% hækkun áfengisgjalds í byrjun ársins. Magnið minnkar um milljón lítra. Miðað við reynslu undanfarinna ára má búast við því að dagurinn á morgun verði næst söluhæsti dagur ársins í Vínbúðunum.

Útlit er fyrir að sala á víni hjá ÁTVR verði um 5% minni í ár en á síðasta ári. Gangi það eftir seljast 18,9 milljónir lítra sem er einni milljón lítra minna en á árinu 2009. Mesti samdrátturinn er í sterku áfengi, jafnvel 20%, en það vegur tiltölulega lítið í heildar lítrafjöldanum.

Áfengisgjald var hækkað um 10% 1. janúar sl. Verð hefur sveiflast til á ýmsum tegundum vegna breytinga á verði frá framleiðendum og gengi krónunnar. Eins og staðan er nú er búist við að tekjur ÁTVR af vínsölu verði nákvæmlega þær sömu og á árinu 2009 eða um 16,9 milljarðar króna.

Annasöm vika

Síðasta vika ársins er ein annasamasta vika ársins hjá Vínbúðunum. 

Búast má við því að mikið verði að gera þar á morgun. Þrátt fyrir samdrátt frá fyrra ári er reiknað með að yfir 40 þúsund viðskiptavinir leggi leið sína í Vínbúðirnar til að birgja sig upp fyrir áramótin og kaupi yfir 260 þúsund lítra. Það er talsvert meira en á Þorláksmessu en litlu minna en föstudaginn fyrir verslunarmannahelgina.

Vínbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu verða opnar til klukkan 20 á morgun og til klukkan 13 á gamlársdag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka