Fréttaskýring: Misvísandi skilaboð um samstarf

Þingmenn Vinstri grænna á fundi.
Þingmenn Vinstri grænna á fundi. mbl.is/Árni Sæberg

 Lilja Mósesdóttir hefur varpað fram þeirri hugmynd að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna en hvorki Atli Gíslason né Ásmundur Einar Daðason hafa viljað tjá sig um hvort þeir hugleiði slíkt hið sama fyrr en þingflokkur VG hefur fundað 5. janúar.

Atli Gíslason segir í samtali við Morgunblaðið að honum þætti skynsamlegra að flýta fundinum þar sem mikil ólga er í þingflokki VG. „Það er eins og svosem með annað að það var ekki haft samráð um tímasetninguna við okkur þremenningana.“

Óvíst með Guðfríði Lilju

Ríkisstjórnin er nú varin af þrjátíu og fimm þingmönnum af sextíu og þremur. Ef þremenningarnir segja sig úr þingflokki VG hefur ríkisstjórnin því lægsta mögulega þingmeirihluta eða þrjátíu og tvo þingmenn.

Þá vaknar spurningin hvað Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mun gera þegar hún snýr aftur á þing eftir barneignarleyfi. Hún er gjarnan flokkuð í sama lið og þremenningarnir og hefur fundað með þeim um hjásetu þeirra við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ef af úrsögnum þeirra fjögurra verður væri því þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar fallinn.

Hægt að leysa allt ef menn vilja

Ásmundur Einar Daðason kveðst ekki vilja ræða stöðu sína innan þingflokksins fyrr en eftir þingflokksfund VG. „Það er nú hægt að leysa allt ef menn vilja. Það er búið að boða til þingflokksfundar en fram að þeim tíma finnst mér eðlilegt að halda öllum yfirlýsingum í lágmarki.“

Ásmundur kveðst þó hafa fundið fyrir þreifingum á milli Framsóknarflokksins og stjórnarflokkanna. „Maður hefur fundið það á göngum. Þetta hefur borist út af og til. Það verður að leita svara við því hjá Framsókn, ekki hjá mér. Ég er ekki í innsta hring þar.“

Taka góðan tíma í vinnufund

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður VG, var ekki reiðubúinn að tjá sig afdráttarlaust um það hvort ríkisstjórnin mundi lifa af í óbreyttri mynd, í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það er mjög erfitt að segja til um það. Auðvitað vona ég það. En eins og ég segi ætla ég að spara allar yfirlýsingar þangað til við erum búin að hittast og fara yfir málin. Við ætlum að taka okkur góðan tíma í vinnufund eftir áramót,“ segir Árni Þór sem kveður þingflokkinn ætla að fara vel yfir málin á fundi sínum 5. janúar. „Á þingflokksfundi rétt fyrir jól kvöddumst við með þeim orðum að við skyldum hugsa okkar mál yfir jól og áramót – að við skyldum taka okkur frí frá þessu og hittast svo eftir áramót.“

Össur og Jóhanna eiga að víkja

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kveður stefnumál flokks síns og ríkisstjórnarinnar of ólík til að geta átt samleið í ríkisstjórn.

„Ég get aðeins talað fyrir mig – því nú hefur þingflokkurinn ekki komið saman síðan fyrir jól – en ég tel að það beri alltof mikið í milli hjá Framsóknarflokknum og ríkisstjórninni til þess að það sé hægt að ná samkomulagi í lykilmálum. Ég hef t.d. ekki viðurkennt – og kem ekki til með að viðurkenna – lagalega skyldu okkar til að greiða Icesave. Ég tel jafnframt að ríkisstjórnin hafi ekki á þeim 26 mánuðum sem liðnir eru frá hruni gert það sem hún þurfti að gera til að koma heimilunum til hjálpar,“ segir Vigdís sem kveður einnig skiptar skoðanir um Evrópumálin í þingflokki Framsóknar. Þá vill Vigdís að helstu talsmenn ríkisstjórnarinnar víki.

„Ég myndi setja það sem skilyrði að hrunráðherrarnir tveir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, hyrfu af vettvangi og þar af leiðandi Steingrímur J. Sigfússon jafnframt, því þetta eru þeir þrír dragbítar sem hvíla yfir ríkisstjórninni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert