Útlit er fyrir að Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, þurfi að leita til dómstóla til að freista þess að fá aðgang að 61 skýrslu sem tekin var af fólki hjá rannsóknarnefnd Alþingis og tölvupóstsamskiptum Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Rannsóknarnefndin hefur lögum samkvæmt afhent Þjóðskjalasafninu öll gögn sín til varðveislu. Hluti þeirra hefur verið gerður aðgengilegur fræðimönnum að uppfylltum skilyrðum, en í lögum um nefndina segir að ef höfðað er sakamál á hendur einhverjum sem vikið er að í gögnunum skuli sömu reglur gilda um aðgang að upplýsingum eins og almennt um sakamál.
Sigríður hefur farið fram á það við Þjóðskjalasafnið að fá gögnin afhent en þeirri beiðni var synjað með vísan til stjórnarskrárákvæðisins um friðhelgi einkalífsins og þess hversu rík skylda hvíldi á fólki að gefa skýrslu fyrir nefndinni og draga þar ekkert undan.
„Ég tel mjög nauðsynlegt að fá þessar skýrslur, meðal annars af lykilfólki í bönkum, Seðlabanka og ráðuneytum, en þau telja að það sé ekki heimilt að afhenda skýrslurnar og tölvupóstsamskipti Geirs," segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið.