Róbert Marshall íhugi afsögn

Sigurjón Þórðarson (lengst til vinstri) á flokksfundi Frjálslynda flokksins. Úr …
Sigurjón Þórðarson (lengst til vinstri) á flokksfundi Frjálslynda flokksins. Úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, ætti að íhuga  að segja af sér þingmennsku vegna aðkomu sinnar að ákvörðunum vegna Landeyjahafnar, að mati Sigurjóns Þórðarsonar, formanns Frjálslynda flokksins. Sigurjón vill þingkosningar í vor.

„Ég tel að Róbert Marshall sé að beina sjónum frá sinni ábyrgð í málinu sem er auðvitað sú að hann var formaður í stýrihóp sem fór í þessa framkvæmd og hlustaði ekki á neinar viðvaranir. Ég er alveg á því að ef þessi höfn á að ganga að þá þurfi að verja í hana margfalt meira fé en nú hefur verið lagt í hana, þ.e.a.s. ef hún er ekki einfaldlega notuð sem sumarhöfn.

Því finnst mér einfaldlega að Róbert ætti að íhuga stöðu sína Í ársbyrjun 2009 var hann að veifa hafnargerðinni og skreyta sig með því að hún væri á hans ábyrgð. Nú búa Vestmanneyingar við ótryggar samgöngur.

Að auki þurfa skattgreiðendur að fara að punga út miklu meira fé til að halda úti lágmarkssamgöngum til Eyja. Sá sem er búinn að leysa út pólitískan ávinning vegna málsins hlýtur því í kjölfarið að íhuga að axla pólitíska ábyrgð sem því fylgir. Mér finnst að Róbert ætti að íhuga að segja af sér þingmennsku.“

Vill kosningar með vorinu

Sigurjón telur nauðsynlegt að efna til kosninga.

„Ég held að það væri best fyrir þjóðina við þær aðstæður sem nú eru uppi að það yrðu kosningar með vorinu. Ég er sannfærður um að okkur muni ganga vel. Ég á allt eins von á því að Guðjón Arnar Kristjánsson verði í framboði. Fyrir síðustu kosningar glímdum við við mikil innanmein í flokknum rétt fyrir kosningar. Það verður annar svipur á þessu núna.“

Sigurjón telur kjósendur sakna baráttu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum.

„Ég hygg að margir, sérstaklega í Norðvesturkjördæminu, sakni þess málflutnings sem við höfum staðið fyrir á þingi og finnist sem er að stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, hafi ekki staðið fyrir þeim breytingum sem þeir boðuðu í síðustu þingkosningum. Það eru líka margir sem sjá að það er ekki hægt að komast út úr þeim vandræðum sem ríkissjóður er í með bókhaldsaðgerðum. Það þarf að fara skapa raunveruleg verðmæti í landinu og fara betur með þau sem fyrir eru.“ 

Sigurjón telur sjálfstæðismenn hafa takmarkaðan áhuga á að taka sæti í ríkisstjórninni. 

„Ég held að stjórnin lafi. Það er takmarkaður áhugi hjá Sjálfstæðisflokknum að fara í stjórn. Þingflokkur sjálfstæðismanna nýtur ekki trausts.“

Róbert Marshall
Róbert Marshall Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert