Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra, segir það ekki rétt að hann hafi lagt til að hér yrði mynduð þjóðstjórn líkt og haldið hafi verið fram. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.
Aðspurður nánar um hvað hafi farið fram á frægum fundi með ríkisstjórninni í lok september 2008, og meinta tillögu hans um þjóðstjórn, segir Davíð að ráðherrar Samfylkingarinnar hefðu í kjölfarið orðið „eitthvað taugaveiklaðir" eins og hann orðar það, og þeir haldi því enn fram að hann hafi komið á fundinn til að leggja það til að mynduð yrði þjóðstjórn. Svo hafi þó ekki verið.
„Ég var að vona að þetta fólk myndi átta sig á því hvað væri að fara að gerast en það virðist ekki gera það," segir Davíð í viðtali við Viðskiptablaðið.
„Ég sagði í umræðum á þessum fundi að ég hefði alltaf verið á móti þjóðstjórnum, því ég hefði alltaf verið á móti þjóðstjórnum, því í lýðræðisríkjum þyrfti alltaf að vera andstaða og gagnrýnisrödd þannig að fólkið í landinu gæti valið milli tveggja lausna. Ég sagði þó að nú væri ástandið svo alvarlegt, að ef einhvern tíma ætti að mynda þjóðstjórn, þá væri það við þessar aðstæður. Þetta var sagt til að sýna fram á hve alvarlegt ástandið væri orðið. Ég lagði það þó ekki til, þó Þorgerður Katrín og Össur hafi farið úr límingunum og farið að hreyta í mig ónotum eftir fundinn. Síðan hefur auðvitað komið í ljós að Þorgerður Katrín átti mikilla hagsmuna að gæta í bankakerfinu og Össur er auðvitað bara eins og hann er."
Segir Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður Viðskiptablaðsins að haft hafi verið eftir þáverandi ráðherrum Samfylkingarinnar að „tillaga“ Davíðs hafi falið það í sér að hann ætlaði sér sjálfur að verða forsætisráðherra í umræddri þjóðstjórn, Þegar blaðamaður spyr um þetta segir Davíð það þó af og frá.
„Þessir menn tala eins og kjánar enda er þjóðstjórn stjórn þingsins. Ef einhver maður hefði verið að velta fyrir sér hvort hann gæti nú komist aftur í ríkisstjórn, eins og þessi karl var sakaður um svo fráleitt sem það er," segir Davíð og bendir á sjálfan sig, „þá hefði viðkomandi lagt til utanþingsstjórn. Það er einungis þannig sem utanaðkomandi aðilar koma að ríkisstjórn. Þjóðstjórn felur í sér að allir þingflokkar mynda stjórn saman og það væri þá eðlilegt að formaður stærsta flokksins yrði forsætisráðherra eða annar úr þinghópnum sem samstaða næðist um."