Með hlýjustu árum hér á landi

Nauthólsvíkin í Reykjavík minnti oft í sumar á suðræna sólarströnd.
Nauthólsvíkin í Reykjavík minnti oft í sumar á suðræna sólarströnd.

Veðurfar var óvenjulegt árið 2010, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Í þeim landshlutum var það eitt hið hlýjasta sem vitað er um og jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta.  Árið var einnig óvenju hægviðrasamt.

Fram kemur í yfirliti á vef Veðurstofunnar um veður á árinu, að meðalhiti í Reykjavík var 5,9 stig og hafi aðeins einu sinni verið marktækt hærri. Það var 2003. Tvisvar sinnum, 1939 og 1941, hefur hitinn verið jafnhár og nú. Árið telst því í 2. til 4. sæti hvað hlýindi varðar en hiti hefur nú verið yfir meðallagi í Reykjavík 15 ár í röð.

Í Stykkishólmi varð meðalhiti ársins 5,3 stig. Árið er það næsthlýjasta síðan mælingar hófust í Stykkishólmi 1845, lítillega hlýrra varð 2003. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig og er 12. árið í röð þar sem hiti er yfir meðallagi. Í Vestmannaeyjum varð árið það 4. hlýjasta frá upphafi mælinga (1877), en munurinn á þessum fjórum árum er vart marktækur.

Eitt þurrasta árið

Árið var í flokki þeirra þurrustu á Suðvestur- og Vesturlandi. Ef spá um úrkomu síðustu tvo daga ársins stenst verður ársúrkoman um 593 mm og sú næstminnsta sem vitað eru um. Úrkoma var minni 1951 þegar hún mældist 560,3 mm. Úrkoma í Reykjavík var undir meðallagi í öllum mánuðum nema janúar og september.

Í Stykkishólmi hefur úrkoma verið mæld samfellt að heita má frá 1856. Árið 2010 virðist ætla að verða það fimmta þurrasta þar frá upphafi. Þurrara var 1881, 1915, 1916 og 1998. Úrkoma árin 1878 og 1951 var þó nærri því jafn lítil og nú og er enn mögulegt að endanleg úrkoma verði meiri en þessi ár.

Í Vestmannaeyjum var úrkoman í ár um 85% meðalúrkomu, sú minnsta frá 1995. Í Vestmannaeyjum hefur verið mælt frá 1880.

Á Norðaustur- og Austurlandi var úrkoma hins vegar yfir meðallagi. 

Snjór með minnsta móti

Snjór var með minnsta móti á Suður- og Vesturlandi og alhvítir dagar í Reykjavík ekki nema 16. Segir Veðurstofan, að svo fáir hafa alhvítir dagar aldrei verið í Reykjavík frá upphafi snjóhuluathugana þar 1921. Á Akureyri var fjöldi alhvítra daga undir meðallagi en þó voru hvítu dagarnir þar fleiri en flest undanfarin ár.

1641 sólskinsstund

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir 1641 til og með 28. desember. Fleiri sólskinsstundir hafa aðeins mælst fimm sinnum áður í Reykjavík en samfelldar mælingar hófust 1923. Það var árin 1924, 1927, 1931, 1966 og 2005.

Sólskinsstundir á Akureyri voru um 50 fleiri heldur en í meðalári, en langt frá meti. 

Ársmeðalloftþrýstingur hefur ekki orðið hærri í Reykjavík frá því að mælingar hófust 1822. Sama á við um aðrar stöðvar á landinu þar sem mælingar hafa staðið skemur. 

Vindur var með hægasta móti á árinu, meðaltal allra mannaðra stöðva það lægsta frá 1965.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka