Sjómenn boða hörku

Á aðalfundi Sjómannafélags Íslands í gær var samþykkt ályktun þar sem mótmælt er lögum um afnám sjómannaafsláttarins í skattkerfinu. „Við bendum stjórnvöldum á að kjarasamningar sjómanna eru lausir. Sjómenn munu ekki láta ósvífni stjórnvalda ganga yfir sig, heldur mæta til leiks af fullri hörku," segir í ályktuninni.

Sjómannafslátturinn verður lækkaður um 25% um áramót, en þetta er fyrsta skref af fjórum sem miðar að því að afnema afsláttinn. Um 6000 sjómenn nutu skattaafsláttar á þessu ári.

Ákvörðun um að afnema sjómannaafsláttinn var tekin á Alþingi fyrir einu ári. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að afslátturinn verði látinn fjara út á fjórum árum frá og með tekjuárinu 2011. Hann lækkar því um 25% árlega. Sjómannaafsláttur á að lækka úr 987 kr. fyrir hvern lögskráningardag niður í 740 kr. frá og með 1. janúar 2011. Síðan á afslátturinn að lækka aftur niður í 493 kr. árið 2012 og niður í 246 kr. árið 2013 og fellur síðan alfarið brott árið 2014.

Sjómannafélagið segir að sjómenn hafi notið sérstakra skattakjara í yfir 50 ár, þó mun lægri en í nágrannalöndunum. Til dæmis  geti skattafsláttur norskra sjómanna numið allt að 1.500.000 íslenskra króna. Á Íslandi sé sjómannaafsláttur fyrir árið 2010 að hámarki 360.000

„Á sama tíma og ríkisstjórn Íslands ræðst á kjör sjómanna með afnámi sjómannaafsláttarins hafa sjómenn að auki tekið á sig skerðingar í lífeyrissjóðum sínum. Samtímis tryggir ríkisvaldið sjóðfélögum lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins full réttindi án nokkurra skerðinga. Með harðfylgi og ósérhlífni íslenskra sjómanna  skapa sjómenn þann auð og gjaldeyri sem við öll lifum á," segir m.a. í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert